Fara í efni

Yfirlýsing frá sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar staðfesti skipulagsáætlanir varðandi iðnaðar- og athafnasvæðið við Grundartanga á fundi í gær, 4. desember 2014. Upphaf þess að farið var í þessar skipulagsbreytingar voru áform Silicor Materials um að reisa sólarkísilverksmiðju við Grundartanga. Í vor komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að sólarkísilverið þætti ekki líklegt til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og verkefnið væri því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Sveitarstjórnin fékk UMÍS, Umhverfisráðgjöf Íslands ehf., til þess að gera óháð mat vegna áforma fyrirtækisins og er niðurstaða þess að „í stuttu máli virðist fyrirhuguð verksmiðja Silicor Materials á Grundartanga stefna í að verða umhverfisvænsta stóriðja á Íslandi til þessa.“

Ennfremur falla áformin að þeirri hugmynd sem sveitarfélög og hagsmunaaðilar á svæðinu hafa uppi um stofnun þróunarfélags sem hafi það að markmiði að stuðla að uppbyggingu á umhverfisvænni  starfsemi  við Grundartanga. Áform Silicor Materials eru að mati sveitarstjórnar í fullu samræmi við nýsamþykktar  skipulagsáætlanir og áherslur sem Hvalfjarðarsveit leggur til við uppbyggingu á iðnaðarsvæðinu. Sveitarstjórnin bindur vonir við að hreinsun kísilmálms til framleiðslu á sólarkísil nái fram að ganga og styður við fyrirhugað verkefni Silicor Materials á Grundartanga.

 

Hvalfjarðarsveit 5. des. 2014

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar