Samvinna eftir skilnað
Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna
Það er ekki skilnaðurinn sjálfur sem veldur mestum skaða, heldur það hvernig staðið er að honum gagnvart börnunum.
Hvalfjarðarsveit, í samvinnu við Akraneskaupstað, býður foreldrum 0-18 ára barna upp á sérhæfða skilnaðarráðgjöf.
Um er að ræða ráðgjöf, til að koma í veg fyrir og/eða til að draga úr ágreiningi foreldra sem standa í skilnaði eða hafa gengið í gegnum skilnað og vilja stuðla að betri foreldrasamvinnu með hagsmuni barnsins að leiðarljósi.
Foreldrum stendur til boða:
- Rafrænt námskeið á www.samvinnaeftirskilnad.is - hér er um að ræða þrjá áfanga:
- Áhrif skilnaðar á foreldra
- Viðbrögð barna við skilnaði
- Samvinna foreldra við skilnað
- Sérhæfð ráðgjöf hjá SES ráðgjöfum Hvalfjarðarsveitar og Akraneskaupstaðar
- Hópnámskeið. Námskeið fyrir foreldra er fyrirhugað í vor (2021) þar sem ítarlega verður fjallað um áhrif skilnaðar á fjölskyldu.
Verkefnið Samvinna eftir skilnað er reynsluverkefni á vegum félagsmálaráðuneytisins. Markmið verkefnisins er að innleiða og þróa nýtt vinnulag í félagsþjónustu og efla félagslega ráðgjöf með áherslu á skilnaðarmál - barnanna vegna. Með því að veita ráðgjöf og þjónustu á fyrri stigum hjá félagsþjónustu standa vonir til þess að hægt verði að draga úr líkum á ágreiningi á milli foreldra.
Samvinna eftir skilnað (Samarbejde efter skilmisse - SES) var upphaflega þróað í Danmörku og hafa rannsóknir sýnt marktækan mun á líðan þeirra sem taka þátt í verkefninu og þeirra sem ekki gera það. Um er að ræða gagnreynt námsefni sem er ætlað að hjálpa foreldrum við að takast á við breytingar og áskoranir sem algengar eru í kjölfar skilnaðar eða sambúðarslita.
Foreldrar sem vilja þiggja stuðning og ráðgjöf varðandi skilnað og samvinnu eftir skilnað geta sett sig í samband við félagsmálastjóra Hvalfjarðarsveitar í síma 433-8500 eða á netfangið felagsmalastjori@hvalfjardarsveit.is