Fara í efni

Fræðslumál

Menntun

Í Hvalfjarðarsveit er starfræktur sameinaður leik- og grunnskóli, auk þess hafa nemendur úr Hvalfjarðarsveit aðgang að tónlistarskóla, fjölbrautaskóla og símenntunarmiðstöð á Akranesi. Leik- og grunnskóli Hvalfjarðarsveitar heyrir undir fræðslunefnd Hvalfjarðarsveitar.  Nefndin fer með umboð Hvalfjarðarsveitar er varðar málefni leik- og grunnskóla  eftir því sem lög og reglugerðir kveða á um og sveitarstjórn kunna að fela henni hverju sinni.

Leikskólar

Samkvæmt lögum um leikskóla bera sveitarfélög ábyrgð á starfsemi leikskóla og skulu þau hafa forustu um að tryggja börnum leikskóladvöl.  Hvalfjarðarsveit ber ábyrgð á heildarskipan skólahalds í leikskólum sveitarfélagsins, þróun einstakra leikskóla, húsnæði og búnaði leikskóla, sérúrræðum leikskóla, sérfræðiþjónustu, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd leikskólastarfs í sveitarfélagi. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og er ekki skylda. Leikskólinn er fyrir öll börn sem eru yngri en sex ára.

 Grunnskólar

Samkvæmt lögum um grunnskóla bera sveitarfélög ábyrgð á rekstri grunnskóla og kostnaði hans. Hvalfjarðarsveit ber ábyrgð á heildarskipan skólahalds í grunnskólum sveitarfélagsins, þróun einstakra skóla, húsnæði og búnaði grunnskóla, sérúrræðum grunnskóla, sérfræðiþjónustu, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd grunnskólastarfs í sveitarfélaginu. Grunnskólanám er skylda og skulu öll börn og unglingar á aldrinum 6-16 ára sækja grunnskóla. Grunnskólanemendur eiga rétt á að stunda nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi meðan þeir eru í grunnskóla enda hafi þeir sýnt fullnægjandi færni. Skólastjóri í grunnskóla veitir nemanda heimild til slíks náms utan skólans samkvæmt viðmiðum sem sett eru í aðalnámskrá.

 Framhaldsskólar  

Þau ungmenni sem lokið hafa grunnskólanámi eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Þeir eiga jafnframt rétt á því að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs vegna fræðsluskyldu við ólögráða nemendur ef þeir brjóta ekki skólareglur. Sveitarfélög skulu hafa forgöngu um samstarf sérfræðiþjónustu við aðila sem annast sérhæfð greiningar- og meðferðarúrræði á vegum ríkisins vegna einstakra nemenda.

Samstarf skóla
Samstarf grunn- og framhaldsskóla

Til að tryggja samfellu og stuðla að velferð nemenda er mikilvægt að milli grunnskóla og framhaldsskóla séu virk tengsl og miðlun upplýsinga eigi sér stað. Grunnskólanemendur geta hafið nám í framhaldsskóla samhliða grunnskólanámi ef fyrir liggur samkomulag milli viðkomandi grunnskóla og framhaldsskóla um framkvæmdina og er það undir sveitarstjórn komið að koma á samstarfi. Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur áherslu á sveigjanleg skil milli grunn- og framhaldsskóla. Ef nemendur í grunnskóla uppfylla hæfnikröfur í einstökum greinum framhaldsskólans eiga þeir rétt á því að fá nám sem þeir hafa lokið metið til eininga, enda fellur námið að námskrá og námsbrautalýsingum viðkomandi framhaldsskóla og námskröfur eru sambærilegar. Forsenda fyrir námsfyrirkomulagi af þessu tagi er formlegt samstarf á milli grunnskóla og framhaldsskóla.

Mikilvægir tenglar: