Fara í efni

Umsókn um sorpílát, fjölbýli

Í Hvalfjarðarsveit er grunneining íláta í Krosslandi og Melahverfi eftirfarandi:
240 lítra tunna undir almennan (óflokkaðan) úrgang
240 lítra tunna undir plastefni
240 lítra tunna undir pappír/pappa
140 lítra tunna undir lífúrgang

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur samþykkt að gjald fyrir íbúðir í fjöleignarhúsi sé innheimt í hlutfalli við fermetrafjölda hverrar íbúðar af heildarkostnaði fasteignarinnar.

Í fjölbýli þarf meirihluti eigenda að óska eftir breytingum á sameiginlegum sorphirðuílátum/tunnum. Þau gjöld sem greidd eru fyrir sorphirðuna fara eftir fjölda og tegundum tunna og því hafa slíkar breytingar áhrif á alla íbúa viðkomandi fjölbýlis.

Þar sem hússtjórn er starfandi, sendir stjórn inn samþykkta ósk um breytingar sem hafa áhrif á gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs. Ef ekki er starfrækt stjórn, t.d. í smærra fjölbýli, er einfaldlega hægt að senda tölvupóst þar sem fram kemur að allir íbúar fjölbýlisins sé samþykkir breytingunni.

Umsókn um breytingar skal berast til umhverfisfulltrúa Hvalfjarðarsveitar: umhverfi@hvalfjardarsveit.is sem jafnframt veitir nánari upplýsingar um úrgangsmál í Hvalfjarðarsveit.

Sorpgeymslur/sorpgerði
Sorpgeymslur eða sorpgerði eru almennt í sameign fjöleignarhúsa og bera eigendur allir óskipta ábyrgð á sameigninni. Húsfélagið og eigendur bera ábyrgð á sameiginlegum kostnaði og því ábyrgð á kostnaði sem hlýst af rangt flokkuðum úrgangi.

Sannist að einn eigandi sé að valda húsfélaginu kostnaði með því að flokka ekki úrganginn getur húsfélagið endurkrafið hann um kostnaðinn samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Húsfélag getur einnig sett húsreglur sem ná til flokkunar á úrgangi. Sannist það að einn eigandi fari ítrekað ekki eftir reglunum þá getur húsfélagið lagt bann við búsetu eða dvöl hans í húsinu.

Það er Íslenska Gámafélagið sem þjónustar Hvalfjarðarsveit þegar kemur að sorphirðu. Sé rangt flokkað í sorptunnur verða þær ekki tæmdar.