Vinna hafin við úttekt á stöðu fjarskiptamála á Vesturlandi
Samtök sveitarfélaganna á Vesturlandi hafa ákveðið að gera úttekt á stöðu fjarskiptamála á Vesturlandi. Í verkefninu felst að skoða sérstaklega hvar eru gloppur í fjarskiptum, bæði á þjóðvegum og inn til sveita, hvernig fjarskiptafélögin hyggjast leysa úr þessum vanda og hvernig stjórnvöld hyggjast koma að þessari uppbyggingu. Úttektin mun bæði ná til stöðu á farnetsdekkningu sem og fasttengingu (ljósleiðara) til heimila og fyrirtækja á Vesturlandi.
Þetta verkefni er liður í því að skerpa sýn á stöðu fjarskiptamála á Vesturlandi þannig að sveitarfélögin hafi sem bestar upplýsingar um stöðu þeirra og geti kallað eftir úrbótum til þess að bæta búsetuskilyrði og tryggja öryggi íbúa og ferðamanna sem fara um Vesturland. Verkefnið er fjármagnað af Sóknaráætlun Vesturlands og er hluti af vinnu við innviðagreiningu fyrir Vesturland.
Nánar má sjá í frétt hjá ssv.is