Fara í efni

Úrgangsmál í Hvalfjarðarsveit

Ný gjaldskrá, nýtt lagaumhverfi og fleira

Sveitarfélögum ber samkvæmt lögum að innheimta gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs sem næst raunkostnaði. Skylt er að innheimta gjald sem miðast við magn og gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs. Sveitarfélög þurfa því að hverfa frá því að nota kerfi sem innheimtir eitt fast gjald fyrir meðhöndlun úrgangs í að innheimta samkvæmt því magni og tegund úrgangs sem hver og einn lætur frá sér.

Nýtt kerfi við innheimtu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs var innleitt hjá Hvalfjarðarsveit um áramótin í samræmi við lagaákvæði sem tóku gildi á síðasta ári. Innheimtan tekur í dag mið af aðferð sem hefur verið nefnd „Borgað þegar hent er“ (e. Pay as you throw) sem gengur út á að innheimt er eftir magni og tegund úrgangs í stað fasts gjalds. Þannig verður til fjárhagslegur hvati til að draga úr myndun úrgangs en jafnframt hvati til að skila úrgangi flokkuðum til endurnotkunar og endurvinnslu, fremur en með blönduðum úrgangi.

Íbúar hafa nú ákveðinn sveigjanleika til að hafa áhrif á kostnað sinn við meðhöndlun úrgangs með því að ákveða stærð íláta og í nýrri gjaldskrá er gert ráð fyrri minni tegundum grunníláta sem og samnýtingu íláta. Fyrir stærri og/eða fleiri ílát verður einnig innheimt samkvæmt nýrri gjaldskrá. Á álagningarseðlum sem íbúar fá í ár er að finna upplýsngar um gjöld byggð á stærðum, fjölda og tegundum íláta. Einnig eru lögð á gjöld vegna urðunar úrgangs.

Grunneining íláta í Hvalfjarðarsveit samanstendur af eftirfarandi fjórum stærðum og gerðum:
240 lítrar fyrir almennan/óflokkaðan úrgang
240 lítrar fyrir plastefni
240 lítrar fyrir pappa og pappír í Melahverfi og Krosslandi
660 lítrar fyrir pappa og pappír í dreifbýli
140 lítrar fyrir lífúrgang

Mikilvægt er að öll heimili í Hvalfjarðarsveit séu með grunneiningu íláta við húsvegg og flokki í þau samkvæmt merkingum (ef merkingar vantar, er hægt að fá á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar). Ekki er heimilt að urða lífúrgang og því afar mikilvægt að flokka hann frá almennum úrgangi. Tunnur með rangri flokkun verða ekki tæmdar. Einnig er móttökustöð fyrir gler, málma og textíl í Melahverfi og síðar á þessu ári verður sett upp önnur slík við Miðgarð.

Umsókn um aðra samsetningu íláta en grunníláta undir úrgang þarf að berast sveitarfélaginu fyrir 1. apríl nk. Hægt er að sækja um hér á heimasíðunni. Afhending á nýjum ílátum verður á síðari hluta ársins, en nýtt gjald verður ekki innheimt fyrr en samhliða fasteignaskatti árið 2025. Innheimt verður breytingargjald samhliða umsókn sem og tunnugjald og útkeyrslugjald. Sé tunnu skipt út fyrir aðra stærð er eldri tunna tekin upp í nýja tunnu, sé þess óskað, enda sé hún óskemmd. Verð eldri tunnu miðast við verð á nýrri tunnu að frádreginni afskriftarupphæð sem nemur 1/10 fyrir hvert ár sem liðið er frá því notkun hófst.

Auk þessara lagalegu breytinga, mun Hvalfjarðarsveit hefja undirbúning að gerð útboðs vegna sorphirðu síðar á árinu. Það má því áfram gera ráð fyrir talsverðri þróun í þessum málaflokki á næstunni.

Hafa má samband við umhverfisfulltrúa í síma 433 8500 eða með því að senda tölvupóst á netfangið: umhverfi@hvalfjardarsveit.is ef spurningar vakna.

Ítarefni:
Dreifibréf um úrgangsmál í febrúar 2024
www.urgangur.is
www.urgangur.is/betur-gert-flokkad-og-merkt/
www.samband.is/verkefnin/umhverfis-og-urgangsmal/innleiding-hringrasarhagkerfis/