Umhverfismálin í brennidepli!
Sumarið er á næsta leiti, formlega hafið raunar eins og allir vita. Ilmurinn í loftinu, fuglasöngurinn og birtan minna okkur rækilega á það þessa dagana. Það eiga þó eftir að koma svalir dagar en sumardagurinn fyrsti, og um leið fyrsti dagur Hörpu, var vel valinn af forfeðrunum því sumarið – frá sumardeginum fyrsta og til fyrsta vetrardags á haustin – er einmitt hlýrri helmingur ársins.
Á þessum tíma fara margir að huga að vorverkum í garðinum, bændur sinna sauðburði, skólabörn eru meira úti við o.s.frv. Í apríl tóku margir þátt í að ,,plokka“ og meðfylgjandi myndir eru teknar þegar skólabörnin í Skýjaborg röltu um Melahverfið og tíndu rusl og félagar í hestamannafélaginu Dreyra gerðu slíkt hið sama meðfram strönd Barðaness við Blautós og út fyrir Æðarodda. Frábært framtak og gott fordæmi.
Í dag, 3. maí er loftslagsdagurinn og ýmsir af fremstu sérfræðingum þjóðarinnar í loftslagsmálum ætla að útskýra umræðuna um loftslagsmálin á mannamáli. Viðburðurinn er í beinu streymi frá Hörpu. Sjá nánar á loftslagsdagurinn.is.
Hvalfjarðarsveit er að undirbúa vorhreinsun og gámar verða settir upp í Melahverfi, Hlíðarbæ og í Krosslandi þann 12. maí. Nánari upplýsingar um það er að finna á vef sveitarfélagsins og er fólk hvatt til að nýta sér þá þjónustu sem í boði er.
Að lokum koma hér nokkur atriði sem umhverfisfulltrúi hefur fengið ábendingar um og vill koma á framfæri:
- Mikilvægt er að flokka úrgang rétt og á vef Íslenska gámafélagsins er að finna ýmislegt gagnlegt um úrgangsflokkun og fleira: https://gamafelagid.is/flokkun-og-fraedsla/
- Fuglalífið er dásamlegt á vorin og hreiðurgerð hafin, farfuglarnir flykkjast til landsins og fuglasöngurinn fyllir loftin blá. Við beinum því til kattareigenda að setja bjöllu á kisurnar sínar.
- Nú er tíminn til að klippa tré og runna og við minnum á að gámur fyrir gróðurúrgang verður staðsettur hjá öðrum gámum á meðan vorhreinsunin stendur yfir. Mikilvægt er að lóðarhafar haldi vexti trjáa og runna innan sinna lóðarmarka.
- Njótum vorsins, lífsins og útiverunnar; ræktum blóm, tré og matjurtir, skoðum fugla og fræðumst um náttúrunna með því að dvelja í henni.
Umhverfisfulltrúi Hvalfjarðarsveitar