Um álagningu fasteignaskatts og fasteignatengdra gjalda 2015
Að gefnu tilefni vill undirritaður koma því á framfæri að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar tók þá ákvörðun í desembermánuði sl. að lækka álagningu fasteignaskatts á A-hluta fasteigna í sveitarfélaginu á árinu 2015 frá því sem var á árinu 2014. Allt íbúðarhúsnæði, útihús í sveitum, hlunnindi, sumarhús o.fl. falla undir A-hluta fasteigna þar sem álagningarhlutfall fasteignaskatts var lækkað úr 0,47% af fasteignamati umræddra eigna í 0,44% af fasteignamati. Álagningarhlutfall fasteignaskatts á B- og C- hluta fasteigna er óbreytt frá árinu 2014. Á sama tíma ákvað sveitarstjórnin að hækka álagningu lóðarleigu í Melahverfi úr 1,25% í 2,0% af fasteignamati lóða.
Þannig er fasteignamat fasteigna og lóða á hverjum tíma haft til viðmiðunar um álagningu fasteignaskattsins, en það er sjálfstætt mat sem fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands framkvæmir árlega og sveitarfélögin í landinu geta ekki stjórnað eða haft bein áhrif á.
Önnur fasteignatengd gjöld eins og hreinsunargjald rotþróa, sorphirðugjald og sorpeyðingargjald hafa tekið breytingu í samræmi við þróun vísitölu neysluverðs milli áranna 2014 og 2015 en álagning þeirra gjalda hefur ekki verið aukin.
Nú þegar álagningarseðlar fasteignaskatts og fasteignatengdra gjalda vegna ársins 2015 hafa verið sendir fasteignaeigendum í Hvalfjarðarsveit er nauðsynlegt að ofangreint sé haft í huga.
Fasteignaeigendur í Hvalfjarðarsveit eru hvattir til að hafa samband við skrifstofu sveitarfélagsins í síma 433-8500 eða á netfangið kristjana@hvalfjardarsveit.is óski þeir skýringa á álagningu fasteignaskatts eða fasteignatengdra gjalda ársins 2015.
Hvalfjarðarsveit 4. mars 2015
Skúli Þórðarson, sveitarstjóri.