Fara í efni

Tveir prestar kjörnir við Garða- og Saurbæjarprestakall

Kjörnir hafa verið tveir prestar til þjónustu í Garða- og Saurbæjarprestakalli sem nær yfir Akranes og Hvalfjarðarsveit. Niðurstaða kjörnefndar var að velja séra Jónínu Ólafsdóttur og Þóru Björg Sigurðardóttur mag.theol, en sú síðarnefnda mun sérstaklega annast barna- og æskulýðsstarf í sókninni. Þær munu báðar hefja störf með vorinu. Þetta er í fyrsta skipti sem konur eru kjörnar prestar í prestakallinu. Aðrir umsækjendur um stöðurnar voru sr. Gunnar Jóhannesson og sr. Úrsúla Árnadóttir. Þær Jónína og Þóra Björg koma til liðs við sóknarprestinn sr. Þráinn Haraldsson sem þjónað hefur við Akraneskirkju frá 2015 og verið sóknarprestur í Garða- og Saurbæjarprestakalli frá síðasta ári.

„Þetta er í fyrsta sinn sem kjörnefnd hins sameinaða prestakalls kýs presta til þjónustu fyrir sameinað prestakall,“ segir séra Þorbjörn Hlynur Árnason prófastur í samtali við Skessuhorn. „Kjörnefndina skipa 17 fulltrúar, þar af 14 frá Akranesi og einn úr hverri sókn sem myndaði fyrrum Saurbæjarprestakall, þ.e. frá Innra Hólmskirkju, Leirárkirkju og Hallgrímskirkju í Saurbæ. Prófastur er svo formaður kjörnefndar og stýrir fundum hennar,“ segir sr. Þorbjörn Hlynur.