Tilkynning vegna vindorkugarðs að Brekku
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur ekki fjallað um eða tekið afstöðu til málsins enda er það ekki komið inn á borð hennar nema að því leyti að gefa umsögn um matsáætlun framkvæmdarinnar skv. 21. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 og 12. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Það er Skipulagsstofnun sem óskar eftir umsögn sveitarfélagsins þar sem Zephyr Iceland ehf. hefur sent stofnuninni matsáætlun um framkvæmdina skv. 21. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.
Framkvæmdaaðili/ráðgjafi framkvæmdaraðila gerir áætlun um hvernig staðið verði að umhverfismati og hvað verði m.a. skoðað í matinu. Er þessi áætlun kölluð matsáætlun. Skipulagsstofnun mun gera umsögn með matsáætluninni sem fyrirtækið/ráðgjafi framkvæmdaraðila þarf að bregðast við og eftir atvikum taka tillit til við sjálft umhverfismatið. Áður en Skipulagsstofnun gefur álit sitt á matsáætluninni (áætlun um umhverfismat), leitar stofnunin álits/umsagnar fjölda aðila s.s. opinberra aðila, eftirlitsaðila, opinberra aðila, hagsmunaaðila og auk þess er almenningi gefinn kostur á að tjá sig um matsáætlunina.
Þegar Skipulagsstofnun hefur fengið umsagnir hagsmunaaðila, gefur hún út umsögn/meðmæli með matsáætluninni með sínum viðbótum, sem m.a. kunna að vera ábendingar frá umsagnaraðilum. Framkvæmdaraðili þarf að taka tillit til þess sem Skipulagsstofnun kveður á um varðandi umhverfismatið. Þá hefst ferli hjá framkvæmdaraðila sem er gagnaöflun, rannsóknir o.s.frv. Þegar öll gögn liggja fyrir gerir framkvæmdaraðili umhverfismatsskýrslu, þar sem umhverfisáhrif eru metin m.a. á grundvelli ákvæða sem Skipulagsstofnun gerði og sem komu fram í tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun (umhverfismati).
Umhverfismatið er síðan auglýst af Skipulagsstofnun og enn á ný leitar Skipulagsstofnun umsagnar meðal hagsmunaaðila og almennings, þ.m.t. sveitarfélagsins. Þegar þessu ferli lýkur getur, að undangenginni umfjöllun í sveitarstjórn, hafist ferli deiliskipulags og mögulega breytinga á aðalskipulagi, en þessi tvö skipulagsferli má einnig auglýsa samhliða umhverfismatsskýrslu. Sveitarfélagið hefur skipulagsvaldið varðandi þessi tvö ferli, þ.e.a.s. varðandi aðal- og deiliskipulag. Að loknu skipulagsferli vegna aðal- og deiliskipulags, gefur sveitarfélagið út framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðra framkvæmda.
Þess ber að geta að framkvæmdin, eins og henni er lýst í drögum að matsáætlun framkvæmdaraðila, er ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 né endurskoðað aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 sem væntanlega mun hljóta staðfestingu ráðherra og öðlast gildi í árslok 2022. Til viðbótar kemur fram að ekki verði tekin afstaða til breytinga aðalskipulags vegna vindlunda og/eða vindrafstöðva yfir 35m nema fyrir liggi skýr stefnumörkun á landsvísu um vindorkunýtingu og/eða í rammaáætlun.
Sveitarfélagið hefur ekki átt í beinum samskiptum við Zephyr ehf. fyrir utan forsamráðsfund vegna fyrirhugaðs vindorkuvers við Brekku er haldinn var á vegum Skipulagsstofnunar líkt og 8. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana kveður á um en stofnunin fór þess á leit að sveitarfélagið ætti fulltrúa á þeim forsamráðsfundi. Þess má geta að á þeim fundi bentu fulltrúar Hvalfjarðarsveitar á að takmarkaðar upplýsingar lægju fyrir um afstöðu íbúa til vindorkuvera og ítrekuðu mikilvægi samráðs við nærsamfélagið við undirbúning verkefnisins.