Sumartónleikar í Hallgrímskirkju
Sumartónleikar í Hallgrímskirkju í Saurbæ voru haldnir í sjötta sinn í sumar. Í ár voru haldnir níu tónleikar sem fram fóru á sunnudögum. Meðal flytjenda voru Djasstríó Þórs Breiðfjörð, Kammerhópurinn Kvika sem skipaður er söngfólki úr heimabyggð, strengjakvartettinn Kordó, Guja Sandholt ásamt hollenskum tónlistarkonum, Blood Harmony sem skipuð er þremur norðlenskum systkinum, Stephan Kaller, þýskur píanóleikari og Pfälzische Kurrende, þýskur stúlknakór. Ofangreindir flytjendur glöddu fjölmarga tónleikagesti í sumar með fallegum flutningi verka sinna.
Tónleikanefnd kirkjunnar skipa Jósep Gíslason, Valdís Inga Valgarðsdóttir, Ásta Jenný Magnúsdóttir og Margrét Bóasdóttir en nefndin leggur áherslu á að bjóða upp á vandaða tónlist og fjölbreytta tónlistarstíla. Þannig var í sumar í fyrsta sinn “Upptaktur” í samstarfi við Hernámssetrið á Hlöðum, þar sem Soffía Björg, trúbador og tónskáld, kynnti tónlist sína og fékk mjög góðar viðtökur.
Tónleikanefndin aflar styrkja frá ýmsum sjóðum til að greiða þóknun listafólks en aðgangseyrir og allur ágóði af sumartónleikum er nýttur til að efla og styðja menningarstarf við kirkjuna. Þannig hefur nefndin m.a. fjármagnað hljóðkerfi í kirkjuna, keypt sálmabækur og stefnir að kaupum á hirslu fyrir bækurnar ásamt fleiru til að bæta aðstöðuna. Nefndin hefur jafnframt styrkt aðra dagskrá í kirkjunni s.s. í Dymbilviku.
Menningarsjóður Hvalfjarðarsveitar styður við tónleikastarf kirkjunnar sem og sóknarnefnd kirkjunnar, Héraðssjóður Vesturlandsprófastdæmis, Uppbyggingarsjóður Vesturlands og Tónlistarsjóður Menningarmálaráðuneytisins.