Sumarstörf fyrir námsmenn með lögheimili í Hvalfjarðarsveit – undirbúningur átaksverkefnis vegna Covid-19
Í kjölfar átaksverkefnis ríkisstjórnarinnar þar sem gert er ráð fyrir framlagi til úrræða í atvinnu fyrir námsmenn á aldrinum 18-25 ára hefur Hvalfjarðarsveit hafið undirbúning að mögulegri þátttöku í verkefninu. Hugur stendur til að koma til móts við þennan hóp með auknum sumarstörfum á vegum sveitarfélagsins en endanleg útfærsla mun helgast af úthlutuðum fjölda ráðningarheimilda.
Hvalfjarðarsveit óskar því nú eftir viðbrögðum, sem allra fyrst, frá áhugasömum námsmönnum með lögheimili í Hvalfjarðarsveit þannig að unnt sé að meta umfang verkefnisins. Námsmenn þurfa að vera á milli anna og vera 18 ára á árinu.
Áhugasamir námsmenn eru hvattir til að láta vita af sér og senda viðbrögð og fyrirspurnir hið fyrsta á netfangið fristund@hvalfjardarsveit.is Óskað er eftir upplýsingum um reynslu, áhugasvið og nám sem stundað er.