Styrkvegasjóður Vegagerðarinnar - ábendingar óskast
Á næsta fundi í Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd Hvalfjarðarsveitar sem haldinn verður 19. febrúar nk., verður fjallað um erindi Vegagerðarinnar frá 10.02.2025 þar sem tilkynnt er um að opnað hafi verið fyrir umsóknir í styrkvegasjóð Vegagerðarinnar.
Vegna þessa óskar sveitarfélagið eftir ábendingum frá landeigendum um styrkhæf verkefni, fyrir miðvikudaginn 19. febrúar nk. og óskast þær sendar sveitarfélaginu á netfangið hvalfjardarsveit@hvalfjardarsveit.is eða í síma á milli kl. 10 og 12 virka daga.
Vegagerðin hefur opnað fyrir umsóknir í styrkvegasjóð Vegagerðarinnar og er umsóknarfrestur til 7. mars næstkomandi en sótt er um á mínum síðum Vegagerðarinnar.
Umsækjandi hverju sinni skal vera veghaldari samgönguleiðar og skal með umsókn leggja fram greinargóða lýsingu á fyrirhugaðri framkvæmd sem felur m.a. í sér upplýsingar um staðsetningu og notkun vegar, áætlaðan kostnað og aðra fjármögnun verksins.
Samgönguleiðir sem njóta styrkja skulu opnar allri almennri umferð og það athugist að mögulega þarf framkvæmdaleyfi frá sveitarfélaginu til að hægt sé að hefja framkvæmdir á grundvelli styrkja úr styrkvegasjóði Vegagerðarinnar.
Vegagerðin gerir tillögu um afgreiðslu styrkveitinga til ráðherra og skulu styrkir eigi afgreiddir fyrr en framkvæmd hefur verið tekin út án athugasemda.
Heimilt er að veita styrki til samgönguleiða skv. reglum nr. 1155/2011, vegna:
1) vega yfir fjöll og heiðar sem ekki teljast þjóðvegir;
2) vega að bryggjum;
3) vega að skíðasvæðum;
4) vega að skipbrotsmannaskýlum;
5) vega að fjallskilaréttum;
6) vega að leitarmannaskálum;
7) vega að fjallaskálum;
8) vega innan uppgræðslu- og skógræktarsvæða;
9) vega að ferðamannastöðum;
10) vega að flugvöllum og lendingarstöðum sem ekki eru áætlunarflugvellir, en taldir eru upp í samgönguáætlun.
Sjá nánar hér:
https://www.vegagerdin.is/vegagerdin/starfsemi/umsoknir-beidnir-og-styrkir
https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=a6d86e23-1b1e-4995-95de-12ec2ac7524a