Stóri plokkdagurinn 24. apríl 2022
Þann 24. apríl nk. er hinn árlegi plokkdagur en Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hleypti verkefninu af stað á dögunum með hvatningu til okkar allra um að huga að nærumhverfinu og plokka í kringum okkur, því umhverfisvernd byrjar hjá okkur sjálfum.
Ríflega sjö þúsund og fjögur hundruð manns tilheyra samfélaginu „Plokk á Íslandi“ á facebook og þar og víðar má greinilega sjá að almenningur er kominn á fullt í að plokka. Eftir þennan hvellmikla vetur er plast og annað rusl að koma undan snjó og það er mikilvægt að þetta plast náist úr umhverfinu áður en það gerir skaða í náttúrunni okkar.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar hvetur íbúa sveitarfélagsins til að taka þátt og sameina t.d. góða og heilsusamlega útiveru og plokkið. Tvöföld ánægja! Þá er um að gera að slást í hópinn á facebook „Plokk á Íslandi“ og að lokum; muna að taka myndir og merkja þær með myllumerkinu #plokk2022.
Endilega sendið einnig myndir og upplýsingar um plokkið á netfangið: umhverfi@hvalfjardarsveit.is. Það má gjarnan koma fram hvar var plokkað og hversu mikið. Margt smátt gerir eitt stórt!