Stofnun Barnaverndarþjónustu Vesturlands
Á síðasta ári áttu sér stað breytingar á barnaverndarlögum nr. 80/2002. Fólust þær m.a. í því að barnaverndarnefndir voru lagðar niður en í þeirra stað tóku til starfa Umdæmisráð. Einnig voru sett inn skilyrði um lágmarksíbúafjölda, þ.e. að hver barnaverndarþjónusta þyrfti að telja 6000 íbúa. Því var lögð rík áhersla á að minni sveitarfélög myndu standa saman að sameiginlegri barnaverndarþjónustu.
Um síðustu áramót fengu Hvalfjarðarsveit og Borgarbyggð undanþágu frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu til að starfrækja barnaverndarþjónustu þar sem Borgarbyggð er leiðandi sveitarfélag. Síðastliðna mánuði hafa þau átt viðræður við Byggðasamlag Snæfellinga um stofnun Barnaverndarþjónustu Vesturlands. Liggur nú fyrir að þessi sveitarfélög, þ.e.a.s. Snæfellsbær, Grundafjörður, Stykkishólmur og svo Eyja- og Miklaholtshreppur ætla inn í samstarfið að reka sameiginlega barnaverndarþjónustu, undir forystu Borgarbyggðar sem leiðandi sveitarfélag. Því er gert ráð fyrir að Barnaverndarþjónusta Vesturlands muni taka formlega til starfa á þessu ári. Um tímamót er að ræða í þjónustu við börn í Hvalfjarðarsveit og þeim sveitarfélögum sem að samstarfinu standa.