Söguskilti afhjúpað við Laxárbakka
Laugardaginn 17. ágúst sl. var afhjúpað söguskilti við Laxárbakka. Á skiltinu er farið yfir sögu Melahverfis, Heiðarskóla og sláturhúss við Laxá.
Linda Björk Pálsdóttir, sveitarstjóri, flutti ávarp og að því loknu afhjúpaði Hallfreður Vilhjálmsson, fyrrum sláturhússtjóri við sláturhús SS við Laxá, söguskiltið og sagði nokkur orð. Að því loknu var boðið til veitinga á Hótel Laxárbakka þar sem hægt var að skoða albúm með gömlum myndum frá starfsemi sláturhússins.
Menningar - og markaðsnefnd Hvalfjarðarsveitar færir öllum þeim sem komu að undirbúningi dagsins og dagskránni, með einum eða öðrum hætti, innilegar þakkir fyrir þeirra aðstoð og framlag við að gera daginn eins glæsilegan og raun bar vitni.
Skiltið er sjötti liður í verkefninu „Merking sögu og merkisstaða í Hvalfjarðarsveit“ en áformað er að merkja tíu staði víðsvegar í sveitarfélaginu. Verkefnið nýtur stuðnings frá Sóknaráætlun Vesturlands, Styrktarsjóði EBÍ, Faxaflóahöfnum og Mjólkursamsölunni og kann sveitarfélagið þeim bestu þakkir fyrir þeirra framlag.
Kærar þakkir eru einnig færðar sveitungum sem lagt hafa verkefninu lið við miðlun fróðleiks, yfirlestur og ábendingar.
Hin fimm sögu- og merkisstaðaskiltin sem risin eru í þessum áfanga eru við Hallgrímskirkju í Saurbæ, félagsheimilið Miðgarð, við Leirárkirkju, á Miðsandi á Hvalfjarðarströnd og við Hléseyjarveg. Skiltunum er ætlað að dýpka skilning vegfarenda á sögu Hvalfjarðarsveitar og að þau nýtist vel, hvort sem er íbúum eða gestum sem leið eiga um sveitarfélagið, að sem flestir njóti fróðleiks skiltanna auk náttúrunnar og þeirra staða sem skiltin eru staðsett við.
Fleiri myndir frá athöfninni má sjá hér: