Skýrsla um samstarf safna á Vesturlandi
Komin er út skýrsla um aukið samstarf safna á Vesturlandi. Skýrslan er unnin af ráðgjafafyrirtækinu Creatrix undir stjórn Signýjar Óskarsdóttur og Emmu Bjargar Eyjólfsdóttur í samstarfi við Sigurstein Sigurðsson menningarfulltrúa hjá SSV.
Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi var falið af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu að kanna fýsileika á auknu samstarfi eða sameiningu safna á Vesturlandi í samráði við höfuðsafn og viðurkennt safn með vísan til 13. gr. safnalaga, nr. 141/2011. Verkefnið fellur undir lið C-14 í byggðaáætlun sem ber heitið Samstarf safna – ábyrgðarsöfn.
Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hlutu styrk frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu til að vinna verkefnið og var í kjölfarið gerður samningur við Creatrix um framkvæmd þess.
Ljóst er að hugmyndir safnafólks á Vesturlandi ríma vel við stefnu stjórnvalda um öflugt og faglegt safnastarf til framtíðar. Auk þess að staðfesta að söfn á Vesturlandi eru nú þegar í samstarfi þá liggja fyrir hugmyndir um að efla það samstarf með stofnun klasa safna og sýninga á Vesturlandi, þar sem sýningar, setur og önnur safnatengd starfsemi, sem ekki fellur undir safnalög, hafi jafnframt aðgang að vettvanginum. Einnig er lagt til að sveitarfélög á Vesturlandi hefji formlegt samtal um meiri samvinnu varðandi minjavörslu í landshlutanum sem og framtíð rafrænnar skjalavistunar.
Nánar má lesa um samstarfið og skýrsluna á síðu Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi.