Nýtt húsnæði fyrir leikskólann Skýjaborg - arkitekta- og landslagshönnun
Hvalfjarðarsveit bauð í febrúar sl. út hönnun nýs leikskóla og var 9 aðilum boðið að taka þátt en alls bárust tilboð frá 5 aðilum.
Opnunarfundur var haldinn þann 11. mars sl. og hljóðaði tilboð lægstbjóðanda, Andrúms arkitekta, upp á 19,7 milljónir króna en kostnaðaráætlun sveitarfélagsins var 30 milljónir.
Staðsetning nýs leikskólahúsnæðis er fyrirhuguð norður af nýju leiksvæði, Vinavelli, við Innrimel í Melahverfi og byggir á 1 hektara samfélagsþjónustusvæði nr.13 skv. gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032. Gert er ráð fyrir að aðkoma að svæðinu verði, a.m.k fyrst um sinn, um götuna Innrimel en unnið er að nýju deiliskipulagi fyrir svæðið.
Ráðgert er að leikskólinn verði hannaður fyrir allt að 68 börn, með fjórum deildum. Ein deild verði sérstaklega ætluð börnum frá 12 mánaða aldri og rúmi 12 til 14 börn, á meðan hinar deildirnar rúmi 18 börn hver. Stoðrými verða hönnuð til að mæta þörfum allt að 68 barna og starfsfólks. Mögulega verður byggingu hússins áfangaskipt, s.s. 4. deildinni.
Helstu verkefni eru gerð þarfagreiningar, hönnun á nýjum leikskóla ásamt frágangi lóðar auk gerð verklýsinga og kostnaðaráætlunar fyrir hvern verkþátt svo bjóða megi verkið út. Verklok ráðgjafa er þegar lokaúttekt nýs leikskóla hefur farið fram og reyndarteikningar hafa verið lagðar inn til byggingarfulltrúa.
Áætlað er að verkfræðihönnun verði boðin út síðar árið 2025.
Samkvæmt verklýsingu verksins er vinnu við verkið áfangaskipt, fyrri hluti hönnunargagna á að liggja fyrir í ágúst 2025 og síðari hluti í janúar 2026. Áætlað er að sjálf verkframkvæmdin verði boðin út árið 2026 og gera fyrstu áætlanir ráð fyrir að byggingu leikskólans ljúki árið 2027.
Mannvirkja- og framkvæmdanefnd Hvalfjarðarsveitar mun fjalla um og taka afstöðu til tilboðanna á næsta fundi sínum í apríl næstkomandi.