Samstarfssamningur við Björgunarfélagið
Hvalfjarðarsveit hefur gert nýjan samstarfssamning til fimm ára við Björgunarfélag Akraness. Í honum felst árlegur styrkur að fjárhæð 1,4mkr. en fjárhæðin er vísitölutengd og uppreiknast árlega. Samningsaðilar eru sammála um nauðsyn þess að í Hvalfjarðarsveit sé rekin öflug starfsemi björgunarsveitar sem geti sinnt ýmiskonar björgunarstörfum þegar á þarf að halda og er Björgunarfélag Akraness mikilvægur þáttur í skipulagi almannavarna í Hvalfjarðarsveit. Samningurinn felur jafnframt í sér að Björgunarfélag Akraness standi fyrir kynningu á starfsemi sinni fyrir unglinga í Hvalfjarðarsveit og vonar sveitarfélagið að það geti orðið til þess að vekja áhuga þeirra á inngöngu í félagið. Björgunarfélagið mun einnig standa fyrir einni æfingu á ári sem endurspegli aðkomu og áhættur á völdu útivistarsvæði í sveitarfélaginu auk þess að skila árlega skýrslu er inniheldur yfirferð yfir mögulegar úrbætur á aðgengi, fjarskiptum og öðru er varðar öryggi íbúa og ferðamanna á útivistarsvæðum í sveitarfélaginu.
Hvalfjarðarsveit þakkar Björgunarfélaginu fyrir afar gott samstarf í gegnum árin og óskar félaginu og félagsmönnum þess farsældar í sínum störfum sem þeir sinna af æðruleysi í sjálfboðavinnu allan ársins hring, starfi sem bjargar mannslífum og skiptir svo oft sköpum í erfiðum aðstæðum í lífi fólks.