Samstarfssamningur Hvalfjarðarsveitar við ÍA
Frá janúar 2022 hefur verið í gildi samstarfssamningur við Íþróttabandalag Akraness þar sem markmið Hvalfjarðarsveitar hefur verið að styðja við öflugt íþrótta-, forvarna- og félagsstarf sem fram fer innan Íþróttabandalags Akraness, hjá aðildarfélögum þess, fyrir samfélagið í Hvalfjarðarsveit.
Samningurinn tryggir að íbúar í Hvalfjarðarsveit eigi kost á að stunda hvers kyns starf sem fram fer innan Íþróttabandalagsins og aðildarfélaga þess, hvort sem um er að ræða íþrótta-, forvarna-, félagsstarf eða annað.
Greiðslur Hvalfjarðarsveitar skv. samningum eru tvíþættar, annars vegar er greitt á hvern íbúa sveitarfélagsins og hins vegar á hvern iðkanda með lögheimili í Hvalfjarðarsveit, fjárhæðir eru verðtryggðar og reiknaðar í janúar ár hvert.
Þegar litið er til þróunar framlagsins til Íþróttabandalagsins er afar gleðilegt að sjá að iðkendafjöldi eykst ár frá ári sem og heildargreiðsla til félagsins, sjá samantekt hér fyrir neðan.
Það er óskandi að iðkendum úr Hvalfjarðarsveit haldi áfram að fjölga enda er ástundun í félags- og íþróttastarfi ein besta forvörnin sem völ er á.
Hvalfjarðarsveit er stolt af því að styðja við öflugt og gott starf hjá Íþróttabandalagi Akraness.