Samstarfs- og málefnasamningur sveitarstjórnar
Á 358. fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar þann 25. ágúst sl. var lagður fram og samþykktur samstarfs- og málefnasamningur sveitarstjórnar kjörtímabilið 2022-2026, sjá hér.
Samningurinn er leiðarstef sveitarstjórnarfulltrúa sem ætla að vinna sem ein heild í átt að ennþá betra sveitarfélagi. Meðal þess sem sveitarstjórn hyggst stuðla að er gott upplýsingaflæði til íbúa, landeigenda, frístundahúsaeigenda og annarra hagsmunaaðila og í því skyni mun sveitarstjórn reglulega birta fréttabréf á heimasíðu sveitarfélagsins ásamt því að áformað er að haldnir verði upplýsingafundir um einstök málefni. Setja á inn ábendingarhnapp á heimasíðu sveitarfélagsins þannig að með auðveldum hætti verði hægt að senda inn ábendingu án þess að senda inn formlegt erindi auk þess sem viðverutímar oddvita í stjórnsýsluhúsi verða auknir.
Áfram verður unnið að stafrænni þróun og ötullegri vinnu að jafnréttismálum verður framhaldið sem og að þjónusta við fjölskyldur og einstaklinga haldi áfram að haldast í hendur við uppbyggingu samfélagsins. Sveitarstjórn vill koma á opnu samtali við eldri borgara með stofnun öldungaráðs og stefnt er að þátttöku í verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Staðinn verður vörður um þann veglega frístundastyrk sem sveitarfélagið býður upp á ásamt því að skoðað verður hvort unnt sé að koma á laggirnar aukafrístundastyrk til tekjulágra heimila. Sveitarstjórn vill að Félagsmiðstöðin 301 haldi áfram öflugu starfi fyrir mið- og unglingastig og að reglulega séu haldin námskeið í sveitarfélaginu svipað og gert var á vorönn 2022 fyrir börn á yngsta stigi. Samþykkt hefur verið gerð frístundastefnu er varðar alla aldurshópa í sveitarfélaginu og vill sveitarstjórn að í boði verði til frambúðar samskonar frístund og var núna í vor og haust auk þess að boðið verði upp á vinnu stóran hluta sumars í vinnuskóla Hvalfjarðarsveitar.
Hvað varðar fræðslumál vill sveitarstjórn sjá að haldið verði áfram því öfluga starfi sem unnið er að í leik- og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar, leikskólinn Skýjaborg verið áfram gjaldfrjáls leikskóli frá kl. 9-14 og 25% afsláttur á fæðisgjaldi í leik- og grunnskóla verði áfram. Menntastefna Hvalfjarðarsveitar sem samþykkt var í vor verður innleidd en hún gerir ráð fyrir að Barnasáttmáli sameinuðu þjóðanna verði innleiddur í sveitarfélaginu á gildistíma stefnunnar.
Á kjörtímabilinu mun sveitarstjórn leggja áherslu á uppbyggingu með stöðugu og fjölbreyttu lóðaframboði ásamt því að tryggja að innviðir sveitarfélagsins ráði við íbúafjölgun en meðal þeirra verkefna er að vinna áfram með skýrslu starfshóps frá apríl 2022 er varðar framtíðarsýn í leikskólamálum. Áætlað er að byggingarframkvæmdir á nýju leikskólahúsnæði í Melahverfi geti hafist í kjölfar byggingar nýs íþróttahúss við Heiðarborg. Útivistarsvæðið í Melahverfi er á framkvæmdaáætlun og eru vonir bundnar við að hægt verði að fagna opnun þess á Hvalfjarðardögum 2023.
Endurskoðað aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 mun væntanlega hljóta staðfestingu ráðherra og öðlast gildi í árslok 2022. Loftlagsmálin eru stór áskorun á alþjóðavísu og er Hvalfjarðarsveit þar engin undantekning og vill sveitarstjórn líkt og fram kemur í aðalskipulaginu gæta skynsemi og hagkvæmrar nýtingar lands og landsgæða, tryggja vernd landslags-, náttúru- og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Sveitarstjórn fagnar því að hafin sé vegferð að því að Grundartangasvæðið verði grænir iðngarðar með hringrásarhugsun.
Hvað varðar álagningu gjalda, útsvar, fasteignaskatt o.s.frv. þá mun sveitarstjórn gæta hófsemi við ákvörðun þeirra samhliða lögum og reglum þar um. Þjónustugjöldum líkt og sorp- og rotþróargjöldum er eftir sem áður ætlað að standa undir raunkostnaði.
Samstarfs- og málefnasamningurinn er ekki tæmandi listi yfir stefnumál sveitarstjórnar enda ýmis ófyrirsjáanleg verkefni sem koma upp á hverju kjörtímabili en sveitarstjórn sem heild vill hafa það að markmiði að takast á við allar áskoranir og verkefni með hag íbúa sveitarfélagsins í öndvegi. Sveitarstjórnarfulltrúar munu leggja sig fram um að hlusta á íbúa og hvetur sveitarstjórn íbúa, landeigendur, frístundahúsaeigendur og aðra hagsmunaaðila til þess að senda inn ábendingar til sveitarstjórnar.
Sveitarstjórnarfulltrúar halda af stað í kjörtimabilið og vegferðina framundan full af bjartsýni og jákvæðni og hlakka til að vinna fyrir sveitarfélagið okkar allra í góðu samstarfi og samvinnu.