Hvalfjarðarsveit og Akraneskaupstaður í samstarf um þjónustu sveitarfélaga
Hvalfjarðarsveit og Akraneskaupstaður hafa gert með sér samninga um félagsþjónustu, barnavernd og málefni fatlaðra ásamt rekstri Tónlistarskólans á Akranesi.
Þann 27. júní sl. undirrituðu Linda Björk Pálsdóttir,sveitarstjóri í Hvalfjarðarsveit og Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi tvo samninga er varða annars vegar samning um umsýslu mála innan félagsþjónustu, barnaverndar og málefni fatlaðra og hins vegar áframhaldandi samning um rekstur Tónlistarskóla Akraness. Undirritunin fór fram í húsakynnum Akraneskaupstaðar að Stillholti 16-18 og voru viðstödd bæjar- og sveitarstjórnarfulltrúar beggja sveitarfélaganna ásamt starfsmönnum sveitarfélaganna.
„Gott samstarf hefur verið um árabil hjá sveitarfélögunum tveimur og bara afar ánægjulegt að auka við það, við hlökkum til þessa samstarfs er varðar þessa tvo samninga“ segir Sævar Freyr. Samningur um félagsþjónustu, barnavernd og málefni fatlaðra tekur gildi næstkomandi mánudag, þann 1. júlí og gildir hann til eins árs með möguleika á framlengingu. Samningur um rekstur Tónlistarskólans er ótímabundinn og tók hann gildi 1. janúar síðastliðinn. „Fyrir Hvalfjarðarsveit er gott að hafa getað samið við Akraneskaupstað um félagsþjónustu og barnavernd þar sem í því felst ákveðin trygging að geta veitt okkar íbúum stöðuga, faglega og góða þjónustu með aðgengi að sérfræðingum og fagfólki á hverju sviði. Við erum líka afar ánægð með áframhaldandi samstarf um rekstur Tónlistarskólans en það samstarf hefur varað um árabil og ávallt gengið vel. Nýr samningur rammar það samstarf sem er um rekstur tónlistarskólans hins vegar enn betur“ segir Linda Björk.
Samningur um félagsþjónustu, barnavernd og málefni fatlaðra
Samkvæmt samningi um félagsþjónustu, barnavernd og málefni fatlaðra tekur Akraneskaupstaður (velferðar- og mannréttindasvið) að sér þjónustu fyrir Hvalfjarðarsveit sem snýr að félagsþjónustu, barnavernd og málefnum fatlaðra. Litið er á samninginn sem tilraunaverkefni og er hann því gerður til eins árs, frá 1. júlí 2019 til og með 30. júní 2020. Akraneskaupstaður mun eftir sem áður sinna málefnum fatlaðra en til viðbótar bæta við félagsþjónustu, þ.e. félagslegri ráðgjöf og stuðningi, fjárhagsaðstoð og úrræðum í félagsþjónustumálum skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Akraneskaupstaður mun jafnframt sinna barnaverndarmálum Hvalfjarðarsveitar, þ.e. allri vinnslu barnaverndarmála, úrræðum ásamt samvinnu við leik- og grunnskóla sveitarfélagsins og nemendaverndarráðsfundum fyrir leik- og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar. Þau verkefni sem Akraneskaupstaður mun ekki sinna og verða áfram í umsjón Hvalfjarðarsveitar, á sama hátt og áður, eru félagsleg heimaþjónusta og félagsstarf aldraðra. Félagsráðgjafi á vegum Akraneskaupstaðar mun vera með viðveru á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar alla miðvikudaga frá kl. 8:30-12:30 en henti sá tími ekki, eða íbúar kjósa frekar, geta þeir pantað tíma hjá félagsráðgjafa og farið í viðtal á bæjarskrifstofur Akraneskaupstaðar. Íbúar Hvalfjarðarsveitar hafa jafnframt aðgang að öðrum sérfræðingum velferðar- og mannréttindasviðs Akraneskaupstaðar.
Fyrsti viðverudagur félagsráðgjafa í Hvalfjarðarsveit verður miðvikudaginn 3. júlí næstkomandi og er netfang félagsráðgjafa felagsmalastjori@hvalfjardarsveit.is. Móttaka barnaverndartilkynninga fer fram á netfanginu barnavernd@akranes.is eða í síma 433-1000. Í neyðartilvikum skal auðvitað hafa beint samband við Neyðarlínuna í síma 112.
Samningur um rekstur Tónlistarskóla Akraness
Samkvæmt samningi standa Akraneskaupstaður og Hvalfjarðarsveit sameiginlega að rekstri Tónlistarskóla Akraness.
Með samningnum er stefnt að eflingu tónlistarlífs meðal íbúa samningsaðila með því að gefa sem flestum kost á að stunda fjölbreytt tónlistarnám við skólann. Sérstakt reiknimódel var útbúið samhliða þessum samningi og greiðir Hvalfjarðarsveit mánaðarlega samkvæmt því og er í því sambandi stuðst við hlutfalli þeirra nemenda sem stunda nám við skólann úr Hvalfjarðarsveit ásamt fleiri breytum eins og tegund tónlistarnáms. Tónlistarskólinn heyrir stjórnsýslu- og fjárhagslega undir Akraneskaupstað áfram og skal hafa að lágmarki tvo samráðsfundi á ári með Hvalfjarðarsveit.