Nýtt íþróttahús við Heiðarborg – samningar undirritaðir
Gengið hefur verið frá samningum vegna fyrsta áfanga nýs íþróttahúss við Heiðarborg, þ.e. jarðvinnu, uppsteypu, frágangi utanhúss ásamt grófjöfnun lóðar. Um er að ræða samning annars vegar við K16 ehf. um bygginguna og hins vegar við Eflu hf. um verkefnastjórn, byggingarstjórn og eftirlit á byggingu íþróttahúss við Heiðarborg.
Framkvæmdir munu hefjast innan tíðar með uppsetningu girðingar um framkvæmdasvæðið og uppsetningu gámaeininga fyrir vinnuaðstöðu verktaka áður en gröftur og framkvæmdir hefjast á svæðinu.
Íbúar og gestir sem fara þurfa um svæðið eru beðnir um að sýna aðgát og skilning á aðstæðum meðan framkvæmdir standa yfir en áætluð verklok þessa fyrsta áfanga eru 1. júlí 2025.
Framkvæmdin er stór og mikill áfangi í innviðauppbyggingu sveitarfélagsins, framkvæmd sem lengi hefur verið beðið eftir og unnið að. Það er ekki einungis íþróttakennsla grunnskólabarna sem mun njóta nýrrar aðstöðu heldur svo ótal margt fleira sem nýja byggingin mun færa samfélaginu. Hugsjónin er að með nýju íþróttahúsi verði Heiðarborg samfélagsmiðstöð sem rúmi skóla-, íþrótta, frístunda-, félags- og samkomustarf fyrir alla aldurshópa. Þannig er markmiðið að styðja við og efla þróun íþrótta- og frístundastarfs í sveitarfélaginu og um leið stuðla að almennri lýðheilsu allra íbúa Hvalfjarðarsveitar t.a.m. með heilsueflingu og styrkingu forvarna. Heiðarborg hýsi og rúmi þannig til framtíðar fjölbreytt og öflugt starf öllum íbúum og gestum sveitarfélagsins til heilla og að þar sjái öll sér hag í að virkja og nýta aðstöðuna þannig að hún blómstri frá fyrsta degi.
Myndir frá undirritun verksamninga