Nýtt íþróttahús
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar í maí sl., var samþykkt byggingarleyfi fyrir nýtt íþróttahús við Heiðarborg og Heiðarskóla á lóð sveitarfélagsins úr landi Leirár.
Nýja íþróttahúsið er 1.874,3 m2 að stærð og mun tengjast Heiðarborg sem er núverandi íþróttahús/sundlaug/félagsheimili.
Helstu rými hússins eru m.a. íþróttasalur, búningsherbergi, miðrými, skrifstofur og stoðrými ásamt glergangi sem tengist við Heiðarborg. Veggir íþróttasalar og hliðarbygginga eru staðsteyptir en burðarvirki þaks úr stáli og timbri. Öll almenn rými verða á 1. hæð en tæknirými verða á 2. hæð ásamt lagnakjallara í sundlaugarhúsi í Heiðarborg.
Aðalhönnun hússins var í höndum ASK arkitekta en um verkfræðihönnun sá Al-Hönnun ehf. á Akranesi. Samið var við verktakann K16 ehf. um framkvæmd 1. áfanga verksins, sem er jarðvinna, uppsteypa, frágangur utanhúss og grófjöfnun lóðar. Verkfræðistofan Efla hf. sér um verkefna- og byggingarstjórn auk eftirlits.
Áætlaður kostnaður við 1. verkáfanga er um 860 milljónir, en heildarkostnaður við fullbúið hús og lóð er áætlaður um 1.720.000.000 kr. Framkvæmdir hófust í byrjun sumars 2024 og eru verklok áætluð í ágúst 2025. Staða framkvæmda nú er þannig að uppsteypa sökkla er langt komin, verið er að leggja jarðlagnir og fylla að sökklum þessa dagana. Fyrsta gólfplatan var steypt föstudaginn 27. september sl. og í framhaldi af því verður farið í að reisa veggi vestan við íþróttahúsið og verið er að undirbúa einangrun og járnabindingu í gólfplötu íþróttasalar hússins. Á vinnusvæðinu eru að jafnaði fimmtán starfsmenn við framkvæmd verksins.
Umsjón verksins á vegum Hvalfjarðarsveitar er í höndum Hlyns Sigurdórssonar, verkefnastjóra framkvæmda og eigna hjá Umhverfis- og skipulagsdeild.