Fara í efni

Nýr göngustígur meðfram Eiðisvatni

Sveitarfélagið bauð fyrr á þessu ári út gerð göngu- og hjólreiðastígs meðfram Eiðisvatni en um er að ræða 3. áfanga verksins.
Fyrri áfangar stígsins voru gerðir í tveimur áföngum árin 2021 og 2022 og liggja frá götunni Háamel í Melahverfi, að Eiðisvatni, meðfram vatninu, yfir Urriðaá og að tanga sem nefnist Grjótnes.

Verkið nú felst í að leggja 2 metra breiðan göngustíg frá þeim stað þar sem göngustígurinn endar nú við Grjótnes, með Eiðisvatni, um jarðirnar Stóru-Fellsöxl og Fellsenda. Verlok eru áætluð 1. ágúst næstkomandi.

Opnun tilboða fór fram föstudaginn 7. mars sl., og bárust alls 7 tilboð í verkið.
Reyndist fyrirtækið Jónas Guðmundsson ehf eiga hagstæðasta tilboðið eða að upphæð 17.231.000 kr.
Kostnaðaráætlun Hvalfjarðarsveitar var að upphæð 17.799.470 kr.

Hefur Mannvirkja- og framkvæmdanefnd Hvalfjarðarsveitar lagt til við sveitarstjórn að gengið verði til samninga við Jónas Guðmundsson ehf og mun sveitarstjórn fjalla um málið á næsta fundi sínum.