Ný flokkunareining við Miðgarð
Eins og íbúar hafa orðið varir við, er unnið að breyttu fyrirkomulagi á flokkun úrgangs í Hvalfjarðarsveit og raunar landinu öllu, með það að markmiði að samræma aðgerðir á landsvísu, auka flokkun og minnka urðun. Því betur sem við flokkum úrganginn sem frá okkur kemur, því meiri líkur eru á að hægt sé að endurvinna hann.
Liður í þessu er að koma upp litlum grenndarstöðvum eða flokkunareiningum á þrjá staði í sveitarfélaginu. Einni hefur verið komið upp við grenndarstöðina í Melahverfi og nú hefur önnur verið sett við félagsheimilið Miðgarð. Þar er nú farvegur fyrir þessa þrjá úrgangsflokka: gler, málma og textíl. Þriðja og síðasta flokkunareiningin verður við félagsheimilið og sundlaugina að Hlöðum. Það mun vonandi verða fljótlega á næsta ári.
Á heimasíðu Hvalfjarðarsveitar (https://www.hvalfjardarsveit.is/is/thjonusta/umhverfismal/sorphirda-1/flokkun-urgangs-i-hvalfjardarsveit) er nú að finna nánari upplýsingar um flokkun og hvað má og hvað má ekki þegar kemur að einstökum úrgangsflokkum.
Við vonum að þessi viðbót verði enn frekari hvatning til íbúa til að halda áfram að flokka úrgang og koma hráefnum í réttan farveg.