Nægjusemi í nóvember!
Nú er komið að þriðja ári hvatningarátaks Landverndar og Grænfánaverkefnisins undir heitinu Nægjusamur nóvember. Ætlunin er að upphefja nægjusemi sem jákvætt skref fyrir okkur sem einstaklinga og samfélag til þess að stuðla að góðu og heilbrigðu lífi og um leið að minnka vistsporið okkar. Nóvember er neyslusamasti mánuður ársins með dögum eins og svartur föstudagur, netmánudagur og dagur einhleypra, en áhersla á nægjusemi er mótsvar neysluhyggju og hugmyndinni um að okkur vanti stöðugt eitthvað.
Íslenska gámafélagið er virkur þátttakandi í verkefninu og bendir á að allir hlutir sem keyptir eru inn á heimilið eða fyrirtækið enda á einhverjum tímapunkti sem úrgangur. Með aukinni neyslu eykst álag á auðlindir, magn úrgangs eykst og þannig vistsporið okkar. Það er því hagur okkar allra og náttúrunnar að nýta sem mest það sem við eigum, endurnýta og gera við það sem hægt er. Í tilefni átaksins ætlar Íslenska gámafélagið, sem býður ávallt upp á sanngjarnt verð á flokkunarílátum og öðrum vörum sem, ekki að taka þátt í stóru tilboðsdögunum í nóvember og hvetur önnur fyrirtæki að gera slíkt hið sama.
Nægjusamur nóvember samanstendur af viðburðum, greinarskrifum, viðtölum, örnámskeiðum auk fræðsluefnis. Allar nánari upplýsingar má finna hér. https://landvernd.is/naegjusamur-november/