Fara í efni

Myndskreyttir fjölnota pokar á hvert heimili í Hvalfjarðarsveit.

Börn í leik- og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar óskuðu fyrir nokkru eftir samstarfi við sveitarfélagið um að fara í framleiðslu á fjölnota pokum fyrir heimilin í Hvalfjarðarsveit. Ástæður þessarar beiðni er áhugi og metnaður barna og unglinga í sveitarfélaginu til að minnka plastnotkun. Nemendur sendu erindi til Umhverfisnefndar Hvalfjarðarsveitar um samstarf um verkefnið og tók nefndin vel í erindið. Upp úr því hófst formlegt samstarf umhverfisnefndanna þriggja; í Skýjaborg, Heiðarskóla og í Hvalfjarðarsveit. Nú á vordögum litu pokarnir dagsins ljós. Það voru þær Freyja Kolfinna Elmarsdóttir úr Skýjaborg og María Björk Ómarsdóttir nemandi í 8. bekk Heiðarskóla sem hönnuðu myndirnar á pokana. Börnin vilja með þessu framtaki hvetja fólk til að draga úr plastnotkun en eins og flestum er kunnugt þá brotnar plast illa niður í náttúrunni og hefur mjög slæm áhrif á lífríkið. Nú hafa öll heimili sveitarfélagsins fengið pokana að gjöf frá börnunum úr Leik- og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar.

 

Á skrifstofu sveitarfélagsins er hægt að nálgast poka til kaups á kostnaðarverði eða kr. 1500.- stk. Skrifstofan er opin milli klukkan 10 og 15 alla virka daga en ekki er hægt að greiða með korti.

 

Með kærri sumarkveðju og þökk fyrir gott og gefandi samstarf 

Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar