Ráðstafanir til að tryggja öryggi fólks í viðkvæmri stöðu
Þar sem Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna COVID-19 veirunnar hefur Hvalfjarðarsveit ákveðið að fara að þeim tilmælum að tryggja sem best öryggi í þjónustu og starfsemi fyrir fólk sem er í viðkvæmri stöðu eða með undirliggjandi sjúkdóma.
Í því skyni verður sundleikfimi í Heiðarborg felld niður um óákveðinn tíma sem og hádegismatur í Heiðarskóla sem hefur verið að lokinni sundleikfimi. Þess í stað verður boðið upp á gönguferðir sem hefjast strax í dag, mánudaginn 9. mars. Farið verður af stað frá Heiðarborg (sami tími og venjulega) þar sem Helga Harðardóttir tekur á móti þátttakendum.
Í ljósi aðstæðna má ekki fara inn í Heiðarborg né Heiðarskóla og biðjum við aðila vinsamlegast um að virða það.
Opnu húsi í Miðgarði verður einnig frestað um óákveðinn tíma.
Sóttvarnalæknir beinir því sérstaklega til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa, einkum þeirra sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eldri einstaklinga að huga vel að hreinlætisaðgerðum og forðast mannamót að óþörfu.
Hér má finna leiðbeiningar landlæknis til viðkvæmra hópa