Fara í efni

Klasi safna, sýninga og setra stofnaður

Þriðjudaginn 6. júní sl. var Klasi safna, sýninga og setra formlega stofnaður á Vesturlandi. Viðburðurinn fór fram í Snorrastofu í Reykholti.

Stofnunin er afrakstur vinnu sem hefur verið yfirstandandi síðan árið 2019, en í Byggðaáætlun 2018-2024 er rætt um að stofnuð verði ábyrgðarsöfn á landsbyggðinni og söfn fari í auknara samtarf eða sameinist. Í Sóknaráætlun Vesturlands 2019-2024 í kafla um menningu var það sett fram sem áhersla að íbúar á Vesturlandi vilji efla samstarf um safnamál á Vesturlandi. Í Menningarstefnu Vesturlands sem kom út 2022 eru sett fram markmið í V. kafla stefnunnar um samvinnu, að aukið verði samstarf sveitarfélaga um safnamál á Vesturlandi. Jafnframt er sett fram þar sem aðgerð að formlegur samráðsvettvangur eða safnaklasi verði stofnaður á tímabili menningarstefnunnar.

Páll Brynjarsson, framkvæmdarstjóri SSV stjórnaði viðburðinum. Signý Óskarsdóttir hjá ráðgjafafyrirtækinu Creatrix fór fyrst yfir vinnuna við mótun Safnaklasa Vesturlands áður en Sigursteinn Sigurðsson, menningarfulltrúi Vesturlands kynnti samþykktarferli sveitarfélaganna.

Að því loknu var stofnskjalið undirritað og kosið í stjórn en í henni sitja:
Bjarnheiður Jóhannsdóttir (Eiríksstaðir og Vínlandssetur)
Hjördís Pálsdóttir (Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla)
Sigrún Þormar (Snorrastofa)
Varastjórn:
Jón Allansson (Byggðasafni í Görðum)
Ragnhildur Helga Jónsdóttir (Landbúnaðarsafn Íslands)
Þórunn Kjartansdóttir (Safnahús Borgarfjarðar)

Að formlegri stofnun lokinni fluttu Hanna Ágústa og Sigríður Ásta Olgeirsdætur tónlist fyrir gesti, Guðlaug Dröfn Gunnarsdóttir, safnafræðingur flutti fræðsluerindið Bíbí og Berlín – Rannsókn og miðlun brúðusafns og Berglind Þorsteinsdóttir, forstöðumaður Byggðasafns Skagfirðinga fræðsluerindið Varðveislusetur Byggðasafns Skagfirðinga.

 Það er ekki skilyrði að um samþykkt safn sé að ræða vilji aðilar ganga í klasann. Nánari upplýsingar veitir Sigursteinn Sigurðsson, menningarfulltrúi SSV, sigursteinn@ssv.is