Fara í efni

Í Hvalfjarðarsveit eru hlutfallslega flestar íbúðir í byggingu

Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun gerði greiningu og stöðumat á íbúðum í byggingu og gaf út skýrslu í september 2024.
Samkvæmt skýrslunni stóð HMS að talningu íbúða í byggingu á landinu öllu seinni hlutann í ágúst og fyrri hlutann af september.
Í talningunni er lagt mat á framvindu hverrar íbúðar í þeim tilgangi að fá betri yfirsýn yfir stöðu og framgang íbúðauppbyggingar í landinu og hvenær áætlað er að íbúðir komi á markað.
Samkvæmt nýjustu talningu HMS eru alls 7.221 íbúðir í byggingu á landinu öllu.

Niðurstöður talningarinnar sýna meðal annars að tæplega 17% samdráttur er á milli ára í nýbyggingu íbúða á landinu ef litið er til fjölda íbúða sem töldust í byggingu á sama tíma í fyrra.
Mest hægist á uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu, einkum í sveitarfélögunum utan Reykjavíkur þ.e. Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi.
Íbúðum í byggingu fjölgar á milli talninga í 17 sveitarfélögum.
Síðasta talning var í mars sl., og fjölgar íbúðum í byggingu á milli talninga mest í Hvalfjarðarsveit og í Hveragerðisbæ og nemur fjölgunin 31 íbúð í hvoru sveitarfélagi.

Það eru sex sveitarfélög á landinu þar sem íbúðir í byggingu eru 10% eða meira af fullbúnum íbúðum sem fyrir eru í sveitarfélaginu.
Í fyrri talningum hefur Sveitarfélagið Vogar verið með hæsta hlutfall íbúða í byggingu en nú er það Hvalfjarðarsveit sem er að stækka hlutfallslega mest með um 20,5% íbúða í byggingu miðað við fjölda fullbúinna íbúða í sveitarfélaginu. Sjá yfirlit hér að neðan.

Skýrslu Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar um íbúðir í byggingu má sjá í heild sinni hér.

Líkt og sjá má í frétt HMS er talsverð uppbygging að eiga sér stað í Hvalfjarðarsveit, eins og verið hefur undanfarin ár, einkum í Krosslandi og Melahverfi.

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum þann 10. júlí sl. að auglýsa tillögu að deiliskipulagi nýs íbúðarhverfis sem kallast Melahverfi 3. áfangi, sjá deiliskipulagsuppdrátt hér, en skipulagssvæðið er um 8,2 hektarar að stærð á óbyggðu svæði austan við núverandi byggð.

 
Aðkoma að nýja íbúðarsvæðinu er um núverandi aðkomu af Vesturlandsvegi, um Bugðumel og nýja götu í hverfinu. Deiliskipulagið gerir ráð fyrir allt að 68 íbúðum. Markmið deiliskipulagsins er að bjóða upp á fjölbreytta búsetukosti hvað varðar stærð og gerð íbúðarhúsnæðis og mynda sterka þéttbýlisheild.

Reikna má með að nýja deiliskipulagið, sem sjá má hér, öðlist gildi í nóvember næstkomandi og eru væntingar bundnar við að hægt verði að úthluta lóðum í nýja íbúðarhverfinu á næsta ári 2025.