Hvalfjarðardagar 2024
Hvalfjarðardagar fóru fram síðastliðna helgi með glæsilegri dagskrá frá fimmtudegi til sunnudags, íbúum og gestum til yndisauka. Fjölbreyttir viðburðir voru víðsvegar um sveitarfélagið og hátíðin vel sótt.
Ungmenna- og íþróttafélag Hvalfjarðarsveitar stóð fyrir Litahlaupi á Vinavelli í Melahverfi á fimmtudeginum þar sem fjöldi þátttakenda baðaði sig í litum og gleði. Áður en hlaupið hófst hitaði Háski stemninguna upp með skemmtilegum lögum og að hlaupi loknu var boðið upp á hressandi Hleðslur í boði MS auk þess sem matarvagn var á staðnum.
Föstudagurinn bauð upp á marga skemmtilega viðburði. Hernámssetrið að Hlöðum var opið, sem og alla helgina. Sveitungagrill var haldið á Vinavelli í Melahverfi þar sem Elkem bauð upp á harmonikkuhljóma með Gunnhildi Vilhjálmsdóttur og trúbardortónleika með Mána Björgvinssyni. Grillaður var góður matur og sykurpúðar, ljúf og góð samverustund. Á föstudagskvöld hélt Eyþór Guðmundsson, fornbókasafnari, áhugaverðan fyrirlestur í Leirárkirkju um Leirárgarða/Beitistaða prentsmiðju.
Á laugardag var þétt dagskrá spennandi viðburða sem hófst við Laxárbakka með afhjúpun á sjötta söguskiltinu og veitinga að afhjúpun lokinni á Hótel Laxárbakka. Melahverfi og Vinavöllur var miðpunktur skemmtunar síðar um daginn, jafnt fyrir unga sem aldna. Þar skemmtu Bolli og Bjalla, Árni Beinteinn og Sylvía Erla, Hestamannafélagið Dreyri bauð gestum að fara á hestbak og Kvenfélagið Lilja sá um markaðstjald þar sem finna mátti alls kyns listaverk og góðgæti. Körfuboltasnillingar úr sveitinni sáu um húllumhæ á nýja körfuboltavellinum og í grillhúsinu var pyslupartý í boði SS, kókómjólk í boði MS, drykkurinn Klaki í boði Rolf Johansen & co. auk þess sem boðið var upp á rautt og hvítt krap í anda þemalita hátíðarinnar. Um kvöldið var samkoma í Leirárkirkju þar sem Bjarni Harðarson, bóksali, hélt áhugaverðan fyrirlestur um veldi Stefánunga á meðan þeir sátu á Leirá. Kvöldinu lauk með skemmtilegri kvöldskemmtun á Vinavelli þar sem Andri Ívars, uppistandari og gítarleikari, sá um að halda uppi fjörinu.
Á sunnudeginum hélt hátíðin áfram, opið var á Hernámssetrinu að Hlöðum og frítt var fyrir gesti í sundlaugina að Hlöðum. Skógræktarfélag Skilmannahrepps bauð upp á vettvangsferð um Álfholtsskóg og listafólk í sveitinni bauð heim og sýndi fjölbreytt verk sín í listarúnti um Hvalfjarðarsveit.
Seinnipart sunnudags fóru fram tónleikar í Hallgrímskirkju í Saurbæ með þýskum stúlknakór, Pfälzische Kurrende, sem flutti m.a. íslensk þjóðlög og kórlög. Deginum lauk með samkomu í Heiðarskóla þar sem fjallað var um 100 ára sögu menningar- og skólastaðarins á Leirá og að samkomu lokinni var boðið var upp á ljúffengar veitingar.
Líkt og undanfarin ár voru viðburðir á hátíðinni skipulagðir og framkvæmdir af einstaklingum, hópum, félagasamtökum og fyrirtækjum og færir sveitarfélagið þeim sérstakar þakkir fyrir. Má þar nefna eigendur jarðarinnar Leirá í Leirársveit, Önnu Leif Auðar Elídóttir og Ásgeir Kristinsson, Ungmenna- og íþróttafélag Hvalfjarðarsveitar, Skógræktarfélag Skilmannahrepps, Hollvinafélag Hallgrímskirkju í Saurbæ, Hernámssetrið að Hlöðum, Kvenfélagið Lilju og listafólk í sveitinni. Framtök sem þessi sýna hversu kraftmikið og samhent samfélagið í Hvalfjarðarsveit er, þar sem fjöldi fólks er tilbúið að leggja sitt af mörkum til að skapa ógleymanlega upplifun fyrir íbúa og gesti hátíðarinnar.
Kærar þakkir eru færðar til nefndarfólks í Menningar- og markaðsnefnd Hvalfjarðarsveitar sem hélt utan um skipulagningu og framkvæmd Hvalfjarðardaga. Verkefni sem þetta krefst mikils tíma og eljusemi og án framlags nefndarfólks yrði hátíðin ekki að veruleika. Bestu þakkir eru jafnframt færðar til allra styrktaraðila Hvalfjarðardaga fyrir þeirra mikilvæga framlag til hátíðarinnar.
Hvalfjarðarsveit þakkar öllum íbúum og gestum sem komu og tóku þátt í Hvalfjarðardögum kærlega fyrir komuna í sveitarfélagið og minnir að lokum á að enn er unnt að taka þátt í bæði ljósmynda- og skreytingakeppni.
Þema skreytingakeppninnar er rauður og hvítur, senda skal myndir af skreytingum á netfangið hvalfjardardagar@hvalfjardarsveit.is fyrir 23. ágúst nk. Vegleg verðlaun í boði frá Hótel Vesturlandi.
Þema í ljósmyndakeppni er Hvalfjarðarsveit, senda skal ljósmyndir á netfangið hvalfjardardagar@hvalfjardarsveit.is fyrir 23. ágúst nk. Vegleg verðlaun í boði frá Sláturfélagi Suðurlands.
Myndir frá Hvalfjarðardögum má sjá hér: