Hvalfjarðardagar 2022-ljósmyndakeppni og skreytingakeppni
Úrslit í ljósmyndasamkeppni og skreytingakeppni Hvalfjarðardaga 2022 liggja nú fyrir. Þemað í ljósmyndakeppninni var "Mannlíf í Hvalfjarðarsveit".
Menningar og markaðsnefnd var sammála um að mynd sem Sunna Rós Svansdóttir tók af börnum í leik á góðum sumardegi á Þórisstöðum bæri af í ljósmyndasamkeppninni þar sem fanga átti ,,mannlíf í Hvalfjarðarsveit".
Í skreytingakeppninni var þemað "Fuglahræður" og valdi dómnefnd fuglahræðuna hjá Sólrúnu Jörgensdóttur og Hreini Gunnarssyni sem vinningshafa.
Dómnefnd skipuð Guðfinnu Indriðadóttur, Baldri Ketilssyni og Ernu Elvarsdóttur skoðaði margar skemmtilegar fuglahræður og valið því erfitt. Að mati dómnefndar þótti fuglahræða Sólrúnar og Hreins bera af sem hræða sem stæði undir nafni og líkleg til að hræða fugla og aðra óviðkomandi úr garði og túnum."
Öllum þátttakendum eru færðar bestu þakkir fyrir þátttökuna.
Þann 4. ágúst sl. afhentu Birkir Guðlaugsson, formaður og Elín Ósk Gunnarsdóttir, varaformaður menningar- og markaðsnefndar Hvalfjarðarsveitar verðlaun sem voru fyrir ljósmyndasamkeppnina máluð mynd á stein frá Josefínu Morell og verðlaun fyrir skreytingakeppni var gjafabréf á Grand hótel, gisting og morgunverður fyrir tvo.
Hér fyrir neðan má sjá myndir af verðlaunahöfum og verkum þeirra.