Hvalfjarðardagar 2015 – Úrslit í ljósmyndasamkeppni
Úrslit í ljósmyndasamkeppni Hvalfjarðardaga 2015 liggja nú fyrir. Vinningsmyndina á Guðjón Guðmundsson á Akranesi. Niðurstaða og greinargerð dómnefndar er eftirfarandi:
„Dómnefnd kom saman þann 1. september 2015 til að velja vinningsmynd úr aðsendum myndum er bárust í keppnina. Úr vöndu var að ráða því viðfangsefni flestra þessara góðu og vönduðu mynda er úr fjölbreyttri náttúru og umhverfi Hvalfjarðarsveitar.
Það var einróma samþykkt af dómnefnd að velja mynd nr. 90 sem vinningsmynd Ljósmyndasamkeppni Hvalfjarðardaga 2015.
Dómnefnd var sammála um að myndin fangi vel fjölbreytileika Hvalfjarðarsveitar. Sjónarhorni myndarinnar er beint að fjallasýn, fjölbreyttu atvinnulífi og ægifagurri náttúru. Myndin er faglega unnin og uppbyggingin áhugaverð þar sem vegurinn leiðir okkur fyrirhafnarlaust inn í myndina. Að lokum fellur viðfangsefni hennar sannarlega vel að þema ljósmyndasamkeppninnar sem var umhverfi og náttúra í Hvalfjarðarsveit.
Dómnefnd vill færa vinningshafa og öllum þeim sem sendu myndir í ljósmyndasamkeppnina bestu þakkir fyrir þátttökuna. Dómnefnd telur eftirsóknarvert að ljósmyndasamkeppni geti hér eftir orðið fastur liður í dagskrá Hvalfjarðardaga því fjöldi og gæði mynda staðfesta að áhugi er sannarlega fyrir hendi.“
Í dómnefnd sátu Jónella Sigurjónsdóttir, Skúli Þórðarson og Örn Arnarson.
Þann 10. september sl. afhentu fulltrúar dómnefndar Guðjóni verðlaun keppninnar en það var vegleg gjafakarfa frá Sláturfélagi Suðurlands og gjafabréf frá Hótel Glym í Hvalfirði sem inniheldur gistingu í eina nótt fyrir tvo, þriggja rétta kvöldverð auk morgunverðarhlaðborðs daginn eftir.
Vinningsmynd Guðjóns Guðmundssonar er hér.
Mynd frá verðlaunaafhendingu er hér.