Hitaveita að Heiðarskóla og í Leirársveit - Heiðarveita
Gengið hefur verið frá samningi við Jónas Guðmundsson ehf. um lagningu hitaveitu að Heiðarskólasvæðinu og í Leirársveit. Um er að ræða lögn sem liggur frá tengingu inn á lögn Veitna ohf. við Beitistaði þaðan sem hitaveita verður lögð að þeim bæjum í Leirársveit sem óskað hafa eftir tengingu og ekki hafa haft aðgengi að hitaveitu. Framkvæmdir munu hefjast 14. febrúar og eru áætluð verklok 16. júní 2022.
Það var á haustmánuðum 2020 sem sveitarfélagið óskaði eftir tengingu við lögn Veitna í landi Beitistaða fyrir hitaveitu að Heiðarskóla og frumathugun verkefnisins hófst. Fram til vorsins 2021 var unnið að samanburðargreiningu á hagkvæmni hitaveitukosta ásamt viðræðum við Veitur ohf. og Hitaveitufélag Hvalfjarðar sf. um möguleg kjör við kaup á heitu vatni úr stofnæðum félaganna. Í mars 2021 samþykkti sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að ganga til samninga við Veitur ohf. Í beinu framhaldi var leitað eftir tilboðum í verkefnisstjórn, hönnun og aðra umsýslu verkefnisins. Ritað var undir þann verksamning 14. maí 2021 og í júlí 2021 var gerð verðkönnun á jarðvinnu fyrir verkið sem lá fyrir í byrjun ágúst 2021. Í október 2021 var ritað undir samning við Veitur ohf. um heildsölu á heitu vatni og í kjölfar þess hófst vinna við gerð samninga við landeigendur á lagnaleiðinni ásamt umsóknum um tengingar við veituna. Samningar voru frágengnir rétt fyrir sl. áramót og í beinu framhaldi þess hefur nú verið ritað undir verksamning vegna jarðvegsframkvæmda og hitaveitulagna.