Hátíðarhöld 17. júní í Hvalfjarðarsveit
Hátíðarhöld á 17. júní fóru fram í Heiðarskóla. Ræðumaður dagsins var Andrea Ýr Arnarsdóttir, oddviti sveitarstjórnar í Hvalfjarðarsveit og fjallkona var Eyrún Jóna Reynisdóttir sem flutti ljóðið "Íslands æviskeið" eftir Ingunni Snædal.
Kór Saurbæjarprestakalls söng nokkur lög, Ásta Marý og Heiðmar glöddu gesti með tónlist sinni og leiklistarhópurinn Melló skemmti með lögum úr Grease. Lára og Ljónsi skyldu börnin eftir með bros á vör. Félagar úr Hestamannafélaginu Dreyra teymdu undir þá sem vildu og boðið var upp á grillaðar pylsur, kaffi og kræsingar sem kór Saurbæjarprestakalls sá um. Á svæðinu voru einnig hoppukastalar, blöðrur og sælgæti.
Dagurinn var ánægjulegur þar sem sveitungar hittust og áttu góða stund saman. Hvalfjarðarsveit þakkar öllum sem mættu á viðburðinn kærlega fyrir komuna og sendir Tónlistarfélagi Hvalfjarðarsveitar sérstakar þakkir fyrir að skipuleggja og halda utan um hátíðarhöldin með glæsibrag.
Myndir frá 17. júní hátíðarhöldunum má sjá hér.