Hátíðarhöld 17. júní í Hvalfjarðarsveit
Þjóðhátíðardagurinn var haldinn hátíðlegur í Hvalfjarðarsveit og hófst hann með guðþjónustu í Leirárkirkju. Hátíðardagskrá fór fram í Heiðarskóla.
Ræðumaður dagsins var Þóra Björg Sigurðardóttir, prestur í Garða- og Saurbæjarprestakalli og fjallkona var Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir frá Bjarteyjarsandi og flutti hún valin erindi úr ljóðinu um Helgu Jarlsdóttur eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.
Kór Saurbæjarprestakalls söng nokkur lög undir stjórn Zsuzsönnu Budai, Leikhópurinn Lotta og Einar töframaður skemmtu börnunum og Jógvan Hansen tók lagið. Félagar í Hestamannafélaginu Dreyra teymdu undir þeim sem vildu og boðið var upp á hoppukastala, andlitsmálun, blöðrur og sleikjó. Sömuleiðis var boðið upp á grillaðar pylsur og glæsilegar kaffiveitingar.
Valdís Valgarðsdóttir og Ingibjörg Elfa Sigurðardóttir sáu um skipulag á hátíðarhöldum fyrir hönd Tónlistarfélags Hvalfjarðarsveitar og þakkar nefndin þeim kærlega fyrir þeirra framlag og afar vel heppnaða dagskrá.
Fjölmenni var við hátíðarhöldin og ánægjulegt að sjá hvað dagurinn heppnaðist vel.
Myndir frá 17. júní hátíðarhöldunum má sjá hér: