Framsýn, ábyrg og til fyrirmyndar
Miðvikudaginn 8. mars var fundur í umhverfisnefnd Heiðarskóla og var umhverfisfulltrúi Hvalfjarðarsveitar boðaður á fundinn til skrafs og ráðagerða. Óhætt er að segja að nemendur og starfsfólk skólans beri hag umhverfis og náttúru í brjósti og horfi á málaflokkinn út frá víðu sjónarhorni.
Meðal þess sem rætt var á fundinum var lýðheilsa, matarsóun, útinám, græn svæði, skógrækt, náttúruvernd, dagur umhverfisins og fegrun þess t.d. með því að tína rusl í fjörum og á öðrum opnum svæðum þar sem rusl á ekki heima og getur valdið skaða.
Þá eru nemendur og starfsfólk Heiðarskóla mjög meðvituð um nýjar lagabreytingar í úrgangsmálum og hafa nú þegar komið upp flokkunarstöðvum víða um skólann og þau eru dugleg að flokka og endurnýta. Best er að koma í veg fyrir úrgang, og til að sporna við myndun úrgangs og sóun, verður reglubundinni vigtun matarleifa hrundið af stað í næstu viku. Síðast var það 5. bekkur sem bar sigur úr bítum og verður spennandi að sjá hvaða bekkur sigrar að þessu sinni.
Það er því óhætt að segja að unga fólkið okkar hér í Hvalfjarðarsveit sé framsýnt, ábyrgt og til fyrirmyndar í umhverfismálum.