Framkvæmdir og viðhald í Hvalfjarðarsveit 2022
Endurnýjun á þaki millibyggingar Heiðarskóla er lokið ásamt stórum hluta þeirra viðhaldsviðgerða sem nauðsynlegar voru í kjölfar ástandsskýrslu Verkís og sama gildir um viðhaldsviðgerðir í Skýjaborg vegna ástandsskýrslu Verkís þar.
Gatnagerð við Lyngmel er lokið og fyrstu lóðaframkvæmdir eru vonandi rétt handan við hornið en þar hefur öllum lóðum norðanmegin götunnar nú þegar verið úthlutað. Búið er að bjóða út opna svæðið í Melahverfi og áframhaldandi stígagerð við Eiðisvatn og er samningagerð við verktaka nú í undirbúningi. Framkvæmd við útivistarsvæðið í Melahverfi er skipt í tvo áfanga og skal fyrri hluti þess unninn á yfirstandandi ári en seinni hlutinn, yfirborðsfrágangur, gróður, leiktæki og fleira, árið 2023, verklok þann 15. júní 2023.
Framkvæmdir við Heiðarveitu hafa staðið yfir frá því í vor og mun þeim ljúka á haustmánuðum ásamt því að unnið er að lokaáfanga varmadæluverkefnis sem lokið verður fyrir árslok. Heildarhönnun, verkfræði- og landslagshönnun, nýs íþróttahúss við Heiðarborg gengur vel og er langt á veg komin.
Vinna við gerð gangstétta og göngustíga í Krosslandi miðar vel áfram og er áætlað að þeirri vinnu verði lokið seinni hluta septembermánaðar.