Fjölskylduganga í Álfhólsskógi á Degi umhverfisins
Umhverfisnefnd Hvalfjarðarsveitar í samstarfi við Skógræktarfélag Skilmannahrepps býður til gönguferðar í skógræktinni við Fannahlíð á Degi umhverfisins þann 25. apríl nk. Gangan hefst klukkan 14.00 við bílastæðið við Félagsheimilið Fannahlíð og stendur í um það bil 1,5 klst. Fulltrúar frá Skógræktarfélaginu leiða gönguna og gæða hana ýmsum fróðleik um umhverfið og náttúruna. Gestir eru hvattir til að vera í góðum skóbúnaði og klæddir eftir veðri.
Dagur umhverfisins er haldinn hátíðlegur þann 25. apríl ár hvert en það er fæðingardagur náttúrufræðingsins og læknisins Sveins Pálssonar. Sveinn var fyrstur Íslendinga til að nema náttúruvísindi og lauk námi frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1791. Hann hvatti m.a. til aðgerða gegn skógareyðingu á Íslandi.
Það eru að sjálfsögðu allir velkomnir að koma og njóta útiveru í skjólgóðu og fallegu umhverfi og vonandi sjáum við sem flesta.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar