Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar samþykkt
Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar fyrir árið 2015 ásamt þriggja ára áætlun áranna 2016-2018 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar þann 15. desember sl. Samkvæmt fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir að á árinu 2015 verði rekstrarniðurstaða samstæðu A og B hluta jákvæð um 30,1 millj. króna.
Áætlað er að tekjur A og B hluta verði um 710,6 millj. kr. og að rekstrargjöld verði um 703,9 millj. kr.
Handbært fé í árslok 2015 er áætlað kr. 47,8 millj. kr.
Eignfærð fjárfesting á árinu 2015 er alls 55 millj. kr.
Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði um 76,1 millj. króna eða um 11 % af tekjum.
Gjaldskrárbreytingar frá árinu 2014 eru óverulegar en almennt er gjaldskrám breytt í samræmi við þróun verðlags.
Samkvæmt fjárhagsáætlun 2015 verða fjármunir lagðir til fjárfestinga en þar er helst um að ræða fyrirhugaðar framkvæmdir við gatnagerð í Melahverfi og framkvæmdir í tengslum við vatnsveitu og hitaveitu.
Í þriggja ára áætlun, áranna 2016, 2017 og 2018, er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu og að aukin hagræðing náist í rekstri sveitarfélagsins á tímabilinu, en það er markmið núverandi sveitarstjórnar. Þá hefur sveitarstjórnin áform um að lækka álagningu útsvars á kjörtímabilinu eins og frekast er kostur.
Á tímabilinu verður einnig ráðist í fjárfestingar en þar er aðallega um að ræða fyrirhugaðar framkvæmdir tengdar vatnsveitu og hitaveitu.
Í fjárhagsáætlun ársins 2015 er stefnt að hagræðingu í rekstri allra deilda og stofnana sveitarfélagsins og er sú ráðstöfun nauðsynleg í ljósi versnandi rekstrarniðurstöðu á sl. árum. Sala eigna er ráðgerð á árinu og er þá sérstaklega átt við sumarhúsalóðir sem sveitarfélagið hefur eignast á sl. árum í kjölfar uppboða svo og húsgrunna í Hlíðarbæ. Í þessu samhengi skal tekið fram að Fannahlíð verður ekki seld og verður eignin tekin af söluskrá fasteignasala.
Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar fyrir árið 2015 og þriggja ára áætlun 2016-2018 verður kynnt á íbúafundi sem haldinn verður í Stjórnsýsluhúsinu þann 7 janúar nk. kl. 20:00
Hvalfjarðarsveit 19. desember 2014
Skúli Þórðarson, sveitarstjóri.