Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar 2018-2021
Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar fyrir árið 2018 ásamt þriggja ára áætlun áranna 2019-2021 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar þann 28. nóvember sl.
Niðurstaða fjárhagsáætlunar 2018
- Heildartekjur samstæðu A og B hluta á árinu 2018 eru áætlaðar 822 m.kr. Heildargjöld eru áætluð 775 m.kr.
- Heildartekjur í A-hluta eru áætlaðar 814 m.kr. og heildarútgjöld eru áætluð 769 m.kr. Þar af eru laun og launatengd gjöld 410 m.kr., annar rekstrarkostnaður 315 m.kr. og afskriftir 43 m.kr.
- Hrein fjármagnsgjöld samstæðu eru áætluð um 11 m.kr. en 12 millj. kr. hjá A hluta
- Rekstrarafgangur samstæðu A og B hluta er áætlaður 60,3 m.kr. sem er sama og A-hluta.
- Skuldir og skuldbindingar samstæðu A og B hluta í árslok 2018 eru áætlaðar 335 m.kr. og 338 m.kr. í A-hluta.
- Eigið fé samstæðu A og B hluta er 2.160 m.kr. og A hluta 2.140 m.kr.
- Í sjóðstreymisyfirliti er veltufé frá rekstri árið 2018 í samstæðu A og B hluta áætlað 108 m.kr. en 106 m.kr. ef einungis er litið til A-hluta.
- Gert er ráð fyrir jákvæðum fjarfestingarhreyfingum í samstæðu og A hluta vegna breytinga á langtímakröfum og sölu eigna, samtals um 28 m.kr.
- Afborganir langtímalána eru 15 m.kr. fyrir samstæðu A og B hluta sem er sama og. fyrir A-hluta.
- Ekki er gert ráð fyrir að taka ný langtímalán á árinu.
- Áætlað er að í árslok 2018 verði handbært fé um 222 m.kr. fyrir samstæðuna sem er það sama og fyrir A-hlutann.
Forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árin 2019 – 2021
Tekjur og gjöld:
- Grunnforsenda fyrir fjárhagsáætlun fyrir árið 2019-2021 er áætlun um fjárheimildir fyrir árið 2018.
- Áætlunin tekur mið af kostnaðarverðlagi ársins 2018. Kostnaðarliðir aðrir en laun breytast í takt við spá um breytingu neysluverðsvísitölu.
- Útsvarstekjur breytast á milli ára í takt við launavísitölu eins og hún er áætluð í Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.
- Gert er ráð fyrir að launakostnaður breytist í takt við spá um þróun launavísitölu í Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.
Helstu lykiltölur úr rekstri og efnahag árin 2018-2021
- Framlegð á tímabilinu verður öll árin um 91 millj. kr. eða uppsafnað á tímabilinu um 365 m.kr.
- Veltufé frá rekstri verður á bilinu 102 - 109 m.kr. á ári sem eru um 12% af tekjum.
- Veltufjárhlutfall fer vaxandi öll árin og er á bilinu frá 2,1 árið 2018 til 3,6 í lok tímabilsins.
- Skuldahlutfall lækkar frá um 41 % í upphaf tímabilsins í um 34% í lok þess.
Fjárfesting
Áætlun um fjárfestingu áætlunar 2018-2021 byggir á fyrirliggjandi áætlun um framlög til vatnsveituframkvæmda á vegum Vatnsveitufélags Hvalfjarðarsveitar sf. samtals um 54 millj. kr. á tímabilinu. Gert er ráð fyrir að á fyrri hluta árs 2018 verði samþykktar frekari fjárfestingar á tímabilinu þegar ákvarðanir um verkefni og kostnaðarmat þeirra liggja fyrir. Samþykkt frekari fjárfestinga mun verða mætt með lækkun handbærs fjár. Engin lántaka er fyrirhuguð á áætlunartímabilinu.
Gjaldskrár
Gjaldskrárhækkanir frá árinu 2017 eru einungis vegna sorphirðugjalds sem hækkar nokkuð. Þá hækkun má rekja beint til aukins kostnaðar er fram kemur í nýjum samningi sem gerður var við verktaka í kjölfar útboðs á sorphirðu sl. sumar. Sorpgjaldið er þjónustugjald og það á að endurspegla kostnað sveitarfélagsins við allt það sem tengist því verkefni. Að öðru leyti er gjaldskrám almennt breytt í samræmi við þróun verðlags.
Viðhaldsverkefni 2018
Gert er ráð fyrir að 31 millj. kr. verði varið til viðhalds fasteigna og búnaðar i eigu sveitarfélagsins á árinu 2018. Stærstu viðhaldserkefnin verða í Heiðarskóla, Heiðarborg, Skýjaborg og v/ Svarthamarsréttar.
Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar fyrir árið 2018 og þriggja ára áætlun 2019-2021 verður kynnt á íbúafundi líkt og sl. ár. Tímasetning þess fundar verður auglýst síðar.
Hvalfjarðarsveit 6. desember 2017
Skúli Þórðarson, sveitarstjóri