Fara í efni

Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar 2017 - 2020 samþykkt.

Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar fyrir árið 2017 ásamt þriggja ára áætlun áranna 2018-2020 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar þann 13. desember sl.

Samkvæmt fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir að á árinu 2017 verði rekstrarniðurstaða samstæðu A og B hluta jákvæð um 35,5 millj. króna.
Áætlað er að tekjur A og B hluta verði um 743,1 millj. kr. og að rekstrargjöld verði um 719,1 millj. kr.
Handbært fé í árslok 2017 er áætlað kr. 43,3 millj. kr.
Eignfærð fjárfesting á árinu 2017 er alls 85,0 millj. kr.
Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði um 83,3 millj. króna eða tæp 12,3 % af skatttekjum.

Gjaldskrárbreytingar frá árinu 2016 eru nokkrar og á það sérstaklega við um hækkun á sorphirðpugjaldi og hreinsunargjaldi rotþróa. Þessi hækkun er nauðsynleg þar sem innheimt gjald er ekki að standa undir raunkostnaði við þá þjónustu sem verið er að veita. Þá hækka gjaldskrár félagsheimila nokkuð og á það sama við þar að tekjur standa ekki undir vaxandi rekstarkostnaði. Að öðru leyti er gjaldskrám almennt breytt í samræmi við þróun verðlags.

Gert er ráð fyrir að 28 millj. kr. verði varið til viðhalds fasteigna og búnaðar i eigu sveitarfélagsins á árinu 2017. Stærstu viðhaldserkefnin eru endurbætur á lóð Skýjaborgar, viðhald í Heiðarborg og Heiðarskóla.

Samkvæmt fjárhagsáætlun 2017 verða fjármunir lagðir til fjárfestinga en þar er helst um að ræða fyrirhugaðar framkvæmdir við borun eftir heitu vatni í Svínadal auk framkvæmda við gatnagerð í Melahverfi og vatnsveitu. Stærsta fjárfestingarverkefni ársins er borun eftir heitu vatni í landi Eyrar í Svínadal en til þess er varið 50 millj. kr. á árinu 2017. Sem kunnugt er voru boraðar hitastigulsholur á svæðinu árið 2015 og þykja þær gefa góðar vonir um að árangur náist með frekari borun.

Í þriggja ára áætlun, áranna 2018, 2019 og 2020, er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu öll árin. Niðurstaða fyrir hvert ár er eftirfarandi:  
2018: Jákvæð rekstrarafkoma að fjárhæð 34,5 millj. kr. og handbært fé í árslok 78,4 millj. kr.
2019: Jákvæð rekstrarafkoma að fjárhæð 33,1 millj. kr. og handbært fé í árslok 106,8 millj. kr.
2020: Jákvæð rekstrarafkoma að fjárhæð 33,7 millj. kr. og handbært fé í árslok 148,2 millj. kr.

Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar fyrir árið 2017 og þriggja ára áætlun 2018-2020 verður kynnt á íbúafundi líkt og sl. ár. Tímasetning þeirrar kynningar verður auglýst síðar.

 

Hvalfjarðarsveit 16. desember 2016
Skúli Þórðarson, sveitarstjóri