Eyrarrósin 2023 - opið fyrir umsóknir
Eyrarrósin er viðurkenning veitt framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins og hefur verið veitt allt frá árinu 2005.
Markmið Eyrarrósarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði lista og menningar. Eyrarrósinni fylgir 2,5 milljón króna verðlaunafé. Að auki eru í nafni Eyrarrósarinnar veitt þrenn hvatningarverðlaun til verkefna sem eru minna en fjögurra ára og fylgir hverju þeirra 750 þúsund króna verðlaunafé.
Frá upphafi hafa Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Icelandair (áður Flugfélag Íslands) staðið saman að viðurkenningunni. Verndari Eyrarrósarinnar er frú Eliza Reid forsetafrú.
Umsóknarfrestur er til kl. 16:00 miðvikudaginn 13. apríl.
Meðal fyrri verðlaunahafa má nefna Þjóðlagahátíðina á Siglufirði, Bræðsluna á Borgarfirði eystra, Skaftfell, Frystiklefann á Rifi, Aldrei fór ég suður, Ferska vinda í Garði, List í ljósi á Seyðisfirði, Skjaldborg á Patreksfirði og nú síðast brúðuleikhúsið Handbendi á Hvammstanga.
Allar nánari upplýsingar um fyrirkomulag Eyrarrósarinnar og umsóknareyðublað má finna á heimasíðu Listahátíðar: www.listahatid.is/eyrarrosin