Kveðja frá sveitarstjóra
Kæru íbúar Hvalfjarðarsveitar.
Stjórnvöld hafa tilkynnt að samkomubann verði framlengt til 4. maí nk. Þetta eru sannarlega óvenjulegir tímar sem við lifum þessa daga og vikur, tímar sem kalla á öðruvísi vinnubrögð, viðbrögð og nálgun. Það höfum við fundið í starfi Leik- og grunnskóla sveitarfélagsins þar sem starfsfólk, nemendur og foreldrar hafa sýnt aðlögunarhæfni, frumkvæði og dugnað í gjörbreyttu starfsumhverfi. Það sama á auðvitað við um annað starfsfólk sveitarfélagsins sem af alúð sinnir sínum störfum með hag heildarinnar að leiðarljósi. Við ykkur öll segi ég, hafið allra bestu þökk fyrir ykkar mikilvæga framlag.
Það gildir ekki einungis fyrir starfsfólk sveitarfélagsins, heldur íbúa alla, að nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að allir sem einn vinni saman, sýni umburðarlyndi, hjálpsemi og þolinmæði. Samtakamátturinn getur gert svo ótal margt í hinu stóra samhengi á óvissutímum sem þessum. Það sem mestu máli skiptir er að sýna ábyrgð og fara í einu og öllu að fyrirmælum stjórnvalda, s.s. umgengnisreglum, hreinlæti, fjarlægðarmörkum o.s.frv.
Á heimasíðu sveitarfélagsins, www.hvalfjardarsveit.is er sérstakur COVID-19 flýtihnappur með upplýsingum, viðbrögðum, fréttum og slóðum í tengslum við málefnið þar sem reynt er að miðla efni áfram til íbúa eins og kostur er.
Ítrekað hefur komið fram mikilvægi þess að huga vel að heilsunni, ekki síst barna og unglinga. Í Hvalfjarðarsveit eru öll tækifæri til þess að njóta útiveru og fallegrar náttúru í hvaða formi sem er, njótum samveru og samvista fjölskyldunnar með bjartsýni, nægjusemi og æðruleysi að vopni. Verum þakklát fyrir hinar hversdagslegu gjörðir, núið og lífið, það þarf ekki að vera flókið, við þurfum aðeins að kunna að meta það sem við höfum og sýna auðmýkt.
Framundan er páskafrí sem alla jafnan hefur verið mikill tími ferðalaga, vonandi verður þó breyting á því í ár þar sem stjórnvöld hafa biðlað til okkar Íslendinga að vera heima, „ferðast innanhúss“, sökum ástandsins sem nú varir. Jafnframt er óskað eftir að fólk versli tímanlega fyrir páska og almennt nýti hverja verslunarferð vel þannig að sjaldnar þurfi í búð en áður og munum, aðeins einn í búðina.
Með yfirvegun, þrautseigju og jákvæðni komumst við betur í gegnum þetta saman og munum að um tímabundið ástand er að ræða sem tekur enda.
Verum skynsöm og glöð - hlýðum Víði – við erum öll Almannavarnir !
Gleðilega páska og hátíðarkveðja,
Linda Björk Pálsdóttir, sveitarstjóri.