Vegleg gjöf til leikskólans Skýjaborgar
Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur færði leikskólanum Skýjaborg Hvalfjarðarsveit námsefni að gjöf á dögunum, sem ætlað er að bæta málþroska barna. En Bryndís gerir gott betur og í samstarfi við Ikea, Lýsi, Marel, Raddlist og hjónin Björgólf Thor Björgólfsson og Kristínu Ólafsdóttur mun hún færa öllum leikskólum á landinu námsefnið að gjöf.
Námsefnið heitir Lærum og leikum með hljóðin og er ætlað öllum barnafjölskyldum og skólum. „Allir leikskólar á landinu fá nú í sumar heildstætt efni úr Lærum og leikum með orðin að gjöf til að nýta í starfi með leikskólabörnum. Aukaefni eins og púsl, límmiðar og vinnusvuntur, sem styðja við hljóðanámið með fallegum stafamyndum, fylgir með í skólapökkunum. Einnig munu fimm íslensk smáforrit fyrir iPad vera gefin samhliða til allra skólanna og foreldra íslenskra barna.
Á myndinni er Guðmunda Júlía Valdimarsdóttir, leikskólastjóri leikskólans Skýjaborgar að taka við námsefninu frá Bryndísi Guðmundsdóttur talmeinafræðing.
Starfsfólk og börn í leikskólanum Skýjaborg þakka fyrir þessa höfðingjalegu gjöf frá Bryndísi Guðmundsdóttur talmeinafræðing.