Fara í efni

Endurskoðun samstarfssamninga Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar

Þann 22. desember sl. hittust fulltrúar Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar á fundi á Akranesi til að ræða samstarf og samstarfssamninga.

Sveitarfélögin eru með fjölmarga samstarfssamninga og reka meðal annars Byggðasafnið í Görðum sameiginlega, eru sameigendur að Höfða, hjúkrunar-og dvalarheimili, eru með samstarfssamning um rekstur slökkviliðs og tónlistarskóla auk þess sem sveitarfélögin eru með samninga í tengslum við félagsstarf aldraðra og íþróttastarf. Einnig er samstarf um málefni fatlaðra.

Fundurinn var haldinn í kjölfar þess að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti nýverið að segja upp og óska endurskoðunar á eftirtöldum samstarfssamningum sveitarfélaganna:

Samkomulag um rekstur tónlistarskóla.
Samstarfsamningur um félagsstarf aldraðra.
Samstarfssamningur um ýmis málefni á sviði félags- og íþróttamála.

Á fundinum kom fram að fulltrúar sveitarfélaganna eru sammála um að ástæða sé til að endurskoða tiltekin ákvæði í umræddum samningum. Eðlilegt sé að skerpt verði betur á þeim markmiðum sem stefnt er að með samningum af þessu tagi svo og hlutverki aðila, samskiptum og fleiri mikilvægum atriðum.

Samningarnir eru einungis uppsegjanlegir um áramót en uppsagnarfrestur er 12 mánuðir og samningarnir því í gildi út árið 2015 en unnið verður að endurskoðun þeirra á komandi ári.

 

Hvalfjarðarsveit 23. desember 2014
Skúli Þórðarson, sveitarstjóri.