Elkem gangsetur framleiðslulínu eftir endurbætur
Endurbótum á ljósbogaofni í kísilmálmverksmiðju Elkem á Íslandi á Grundartanga er lokið og verður ofninn endurræstur um miðjan febrúar nema til frekari skerðingar af hendi Landsvirkjunar komi. Ofninn er sá stærsti af þremur í verksmiðjunni og hefur nær allur búnaður ofnsins verið uppfærður og gera áætlanir ráð fyrir framleiðslu á kísilmálmi í ofninum næstu 15 til 20 árin. Framkvæmdir hófust í byrjun október sl. og gengu vonum framar. Fjárfesting Elkem í endurbótunum nemur um 1,2 milljörðum króna. Elkem á Íslandi framleiðir hágæða kísilmálm og fer megnið af honum í rafmagnsstál og annan búnað sem bætir orkunýtingu rafmótora, t.d. í rafbílum og vindmyllum sem gerir framleiðsluvörur fyrirtækisins mikilvæg fyrir þau orkuskipti sem heimurinn stendur í dag frammi fyrir í dag.
Íbúar verða varir við útblástur
Íbúar og starfmenn í fyrirtækjum í grennd við Grundartanga og víðar verða varir við útblástur frá fyrirtækinu í allt að tíu daga eftir gangsetningu. Ekki er ástæða til að óttast útblásturinn en sjónmengun er fyrirséð. Elkem á Íslandi biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem endurræsingin kann að valda og er fólk hvatt til að hafa samband vakni einhverjar spurningar, annað hvort í síma 432 0200 eða í tölvupósti á netfangið thelma.rut.johannsdottir@elkem.com.