Ástandsskýrsla Heiðarskóla innanhúss
Vegna kvartana sem komu fram vegna íveru í rýmum innan Heiðarskóla lét sveitarfélagið vinna skýrslu um ástand skólans innanhúss. Skýrslan, sem unnin var af Verkís, var kynnt í gærkvöldi kl. 20 á Teams fundi með starfsfólki skólans, foreldrum/forráðamönnum barna í skólanum auk fulltrúa sveitarstjórnar, mannvirkja- og framkvæmdanefndar og fræðslunefndar.
Á fundinum fór Indriði Níelsson frá Verkís yfir skýrsluna og kynnti hana og útskýrði þýðingu hennar auk þess sem Guðjón Jónasson, formaður mannvirkja- og framkvæmdanefndar sveitarfélagsins kynnti aðgerðaráætlun sveitarfélagsins og að lokum sagði skólastjóri Heiðarskóla, Sigríður Lára Guðmundsdóttir, nokkur orð um skólastarfið.
Líkt og fram kom á fundinum að þá er það skýr vilji sveitarfélagsins að bregðast við öllum þeim atriðum sem fram koma í skýrslunni og koma húsnæðinu í lag en ljóst er að verkefnið, þó það sé talið tiltölulega einfalt, er umfangsmikið miðað við fyrstu skoðun. Aðgerðum verður forgangsraðað eftir mikilvægi þeirra og eru fyrstu aðgerðir þegar hafnar en gera má ráð fyrir að verktími vari langt fram á næsta ár.
Það eru auðvitað vonbrigði fyrir sveitarfélagið að ástand húsnæðisins, sem er nýlegt, sé með þessu móti en meginorsakir þess eru tvenns konar, annars vegar rangt efnisval og hins vegar ófullnægjandi frágangur. Skýrsluna má finna hér, öllum til upplýsinga. Lagt er upp með að raska skólastarfi sem minnst en hagsmunaaðilar verða áfram upplýstir um framvindu og aðgerðir eins og kostur er og tilefni er til. Verkið verður unnið áfram í samstarfi við sérfræðinga, m.a. hjá Verkís og eru allir sem að málinu koma, starfsfólk skólans, sveitarfélagið sem og aðrir áfram um að láta verkefnið ganga hratt og vel, með eins litlum röskunum á skólastarfi og kostur er.