Ársreikningur Hvalfjarðarsveitar 2022
Á 372. fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar þann 22. mars sl. var ársreikningur Hvalfjarðarsveitar fyrir árið 2022 samþykktur, sjá HÉR.
Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins árið 2022 samkvæmt ársreikningi A og B hluta var jákvæð um 284,9mkr. Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2022 námu tæpum 1.258,7mkr. samkvæmt rekstrarreikningi fyrir A og B hluta en þar af námu rekstrartekjur A hluta rúmum 1.247mkr.
Rekstrargjöld A og B hluta árið 2022 voru alls 1.098,4mkr. Veltufé frá rekstri var 26,32% og veltufjárhlutfall 9,38%.
Heildareignir sveitarfélagsins í árslok 2022 voru 4.044,8mkr. og heildarskuldir námu 169,1mkr. og er þar einungis um skammtímaskuldir að ræða, engar langtímaskuldir.
Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2022 nam 3.875,7mkr. samkvæmt efnahagsreikningi og eiginfjárhlutfall var 96%.
Eitt af fjárhagslegum viðmiðum sveitarfélaga skv. sveitarstjórnarlögum er skuldaviðmið. Það er áfram jákvætt, fer úr 110,98% í 99,23% árið 2022 en veltufé er áfram umtalsvert hærra en skuldir. Rekstrarjöfnuður sveitarfélagsins síðustu þrjú ár (samanlögð rekstrarafkoma á þriggja ára tímabili) er 691,4mkr.
Síðastliðið ár var íbúafjölgun í sveitarfélaginu tæplega 10% milli ára þar sem íbúum fjölgaði um 67 milli áranna 2021 og 2022, voru 687 þann 1. desember 2021 og 754 þann 1. desember 2022. Íbúafjölgunin kemur glöggt fram þegar ársreikningur 2022 er borinn saman við fjárhagsáætlun 2022 þar sem útsvarstekjur eru rúmlega 105,9mkr. hærri en ráðgert var. Rekstrargjöld eru auk þess tæpum 37mkr. undir áætlun ársins vegna ýmissa þátta s.s. lægri kostnaðar við orkukaup, sérfræðiþjónustu og ýmsa aðkeypta þjónustu. Fjármagnsliðir eru jafnframt 41mkr. jákvæðari en áætlun ráðgerði og helgast það fyrst og fremst af breyttu vaxtaumhverfi á Íslandi og þar með betri ávöxtun innlána.
Rekstarniðurstaða ársins 2022 var tæpum 193,4mkr. jákvæðari en áætlun ársins gerði ráð fyrir og vísast til þess sem hér að ofan er getið. Almennt voru einstaka málaflokkar og deildir innan áætlunar ársins 2022.
Handbært fé sveitarfélagsins eykst um tæpar 126,1mkr. milli áranna 2021 og 2022, er rúmur 1,5 milljarður þann 31. desember 2022 og er styrkur af því til framtíðar uppbyggingar innviða eins og byggingu nýs íþróttahúss og leikskóla.
Heildarfjárfestingar sveitarfélagsins árið 2022 námu 264,4mkr., þ.a. til útivistarsvæðis í Melahverfi 103,9mkr., til hönnunar nýs íþróttahúss við Heiðarborg 37,8mkr., til hitaveituframkvæmda 68,3mkr., hlutdeild í kaupum slökkvibifreiðar 24,6mkr. og nettó til gatnagerðar 28,9mkr. (gatnagerðarkostnaður að frádregnum gatnagerðargjöldum).
Hvalfjarðarsveit 24. mars 2023
Linda Björk Pálsdóttir
sveitarstjóri